19.08.1919
Efri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg gat því miður ekki verið viðstaddur aðra umr. þessa máls, en finn samt sem áður ekki ástæðu til þess að halda langa ræðu. Jeg vil að eins leyfa mjer að vekja athygli hv. deildar á þeirri aukningu tekjuhallans, sem orðið hefir á frv. við meðferð þess í báðum deildum — en hann er um 200 þús. kr.

Jeg get þessa hjer að eins til þess að undirstrika það, að ekki muni veita af þeim tekjuaukum, sem till. hafa komið fram um — og það jafnvel þó að fleiri væru og meiri.

Um eitt atriði frv. vildi jeg þó geta sjerstaklega — og þá einkum til þess, að láta í ljós þakklæti mitt við háttv. deild fyrir leyfið, sem veitt hefir verið til þess, að landssjóður mætti ábyrgjast lánveitingu til rafveitu Reykjavíkur. Ástæðan til þessarar ábyrgðar — sem jeg tel áreiðanlegt að verði hjer endanlega samþykt — er sú, að útlendir bankar veittu lánið með því skilyrði að eins, að landssjóður ábyrgðist það fyrir 1. jan síðastl.

Jafnvel þó að stjórnin hafi ekkert getað um það dæmt, hvernig fyrirtæki þetta væri í sjálfu sjer, taldi hún þó sjálfsagt að taka á sig ábyrgðina, því ef hún hefði ekki gert það, hefði það skaðað lánstraust ríkisins út á við, er sjálfur höfuðstaðurinn nyti ekki þess trausts ríkissjóðsins, að hann vildi taka á sig þessa ábyrgð.