09.09.1919
Neðri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Guðmundsson:

Jeg á brtt. á þgskj. 750. Er hún í sama anda og sú brtt., er nýlega var feld hjer, um laun yfirsetukvenna, svo jeg býst ekki við, að hún eigi upp á háborðið hjá hv. deild.

Jeg get ekki fallist á þá stefnu, sem hv. deild virðist vera að taka upp og fer í þá átt, að demba sem mestu af sveitarsjóðum yfir á ríkissjóðinn. Það er ekki svo lítil byrði, sem er lögð á herðar ríkissjóðnum með þessu frv., því jeg býst við, að það nemi um 100 þús. kr. Svo koma yfirsetukonurnar, með 30–40 þús. kr., og svo kemur það, að ríkissjóði er gert að borga hluta af framfærslu manna á sjúkrahúsum, og nemur það um 60 þús. kr. á ári. Ef mín brtt. verður feld, held jeg, að það væri miklu hreinlegra að láta ríkissjóðinn bera allan kostnaðinn við barnafræðsluna það gæti ekki munað miklu, því eftir fjárlögunum, sem samþ. voru í gær, borgar ríkissjóður 192,200 kr. af þessum kostnaði á fjárhagstímabilinu. Ef þessi stefna heldur áfram sigurför sinni, sje jeg ekki annað en að nýja tekjustofna verði að finna. Jeg býst við, að það sýni sig hjer sem oftar, að þessi veslings ríkissjóður á fáa formælendur. Vildi jeg benda á þetta og láta það álit í ljós, að þessi stefnubreyting er alls ekki til bóta, enda mun það sýna sig, að það verður miklu meira gætt hófs, t. d. um fjölda kennara, þegar sveitarsjóðir borga, heldur en þegar það er ríkissjóður.