08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Háttv. frsm. (M. P.) tók það fram, að atkvgr. í þessu máli sýndi, að háttv. deild væri nefndinni sammála, og er það rjett. En háttv. frsm. (M. P.) sagði einnig, að tekjuhallinn væri 60 þús. kr. meiri hjá nefndinni en 1 stjórnarfrv., en það get jeg ekki fallist á að sje rjett. Ef svo væri, þá gæti nefndin haft góða samvisku. En hv. frsm. (M. P.) gleymdi að reikna með tekjuaukum þeim, sem bæst hafa á tekjulið fjárlaganna, síðan fjárlagafrv. fór frá stjórninni. Samkvæmt skattafrv. stjórnarinnar, þegar þau eru tekin til greina, þá hlýtur háttv. þm. að vera ljóst, að útgjöldin, sem aukin hafa verið í fjárlagafrv., gera halla, sem er 60 þús. kr. meiri en sá upprunalegi halli var á fjárlagafrv., að viðbættum hinum áætluðu tekjum samkvæmt skattafrv. stjórnarinnar. En þau frv. getur háttv. fjárveitinganefnd ekki tileinkað sjer.

Þetta þing hefir lagt grundvöll til þess, að skuldir landsins, eins og þær voru á undan stríðinu, margfaldast á nokkrum árum. Þó mjer hafi verið ámælt fyrir að vilja halda aftur af, þá hefi jeg að eins gert það, sem jeg áleit skyldu mína við þingið, að benda á þetta.

Jeg veit hverju verður svarað, að ekkert geri til, þó skuldirnar margfaldist, það megi halda áfram í það óendanlega, það sje altaf hægt að auka tekjurnar. Þetta væri hægt að segja og standa við, ef gjaldþol þjóðarinnar væri takmarkalaust.

En svo er nú ekki, og einhversstaðar eru takmörkin. Jeg sagði, að skuldirnar mundu verða áttfaldaðar frá því, sem fyrir stríðið var, þegar búið væri að koma ýmsum þeim framkvæmdum í verk, sem nú hefir verið lagður grundvöllur að. Fyrir stríðið voru skuldirnar hjer um bil 2 miljónir. Um áramótin nú vil jeg gera þær, þegar fje í landsverslun og skipum er dregið frá, um 6½ milj. kr. Þegar brýr hafa verið bygðar samkv. brúafrv., koma 2 milj. í viðbót, þá í hafnafyrirtæki 1 milj., í byggingar um 4 milj. og í strandgæslu um 3 milj. kr. Á þessu má sjá, að horfurnar fyrir skuldaaukanum eru ekki litlar.

Hv. frsm. (M. P.) sagði að endurskoða þyrfti skattamálalöggjöfina, og er jeg honum sammála um það, enda hefi jeg tekið það fram þegar í byrjun umræðna um fjármál landsins. Mjer hefir heyrst á sumum, að þeir geri sjer von um, að þessi endurskoðun muni ljetta byrðum á landsmönnum; en enginu skyldi gera sjer of miklar vonir um það, því að ekki má gera ráð fyrir, að gjöldin minki við þá endurskoðun, og einhversstaðar verður að fá tekjur upp í gjöldin. Hingað til hafa menn verið furðu fáorðir um, hvaðan tekjurnar ættu að koma, eða á hvern hátt þeirra skyldi afla. Reyndar hefir nýlega komið fram tillaga um að afnema bannlögin og afla landinu stórtekna með því, að leggja toll á vínföng. En eins og flestir munu renna grun í, þá mun jeg ekki, á meðan jeg er í þessari stöðu — en sú tíð fer nú líklega að styttast — koma með tillögu um það; þvert á móti vil jeg, að bannlögin haldist sem lengst. Það verður því einhver annar að taka að sjer þann starfa í minn stað.

Jeg sje að öðru leyti ekki ástæðu til að tala um sjerstakar brtt., enda heyra fæstar þeirra undir mig.

Jeg veit, að háttv. deild lítur öðruvísi á tekjuhallann en jeg, en spá mín er sú, að nýkosið þing muni líta á hann líkum augum og jeg geri.