21.02.1920
Neðri deild: 9. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (1051)

32. mál, skipun læknishéraða o. fl. Kjalarneshérað

Flm. (Einar Þorgilsson):

Þetta frv. er gamall kunningi hjer á Alþingi. — Samskonar frv. var flutt í Ed. í fyrra. komst þar í gegn og til Nd. Þar var það til 1. umr., en dagaði uppi sökum tímaskorts og málafjölda. Engu síður er þörf, að frv. nái fram að ganga. Greinargerðin ber með sjer þær ástæður, sem að málinu liggja, en samt vil jeg leyfa mjer að skýra það ofurlítið nánar.

Í greinargerðinni er sagt, að Kjalnesingum sje ætlað að leita læknis til Hafnarfjarðar og sjeu þar með læknislausir. Þetta má ekki skilja svo, að Hafnarfjarðarlæknarnir sjeu ónýtir, heldur eru það erfiðleikarnir að nálgast þá, sem hjer er átt við. Þeir erfiðleikar eru bæði vetur og sumar, þó út yfir taki auðvitað á vetrum.

Eins og öllum er ljóst, þá er Svínaskarð ófært á vetrum, og verður því að fara í kringum Esjuna, og af því má skilja, að það er betra, að ekki liggi lífið við. Af þessum ástæðum verða Kjósarhreppsbúar, Kjalnesingar og Mosfellingar að vera án þess að leita læknis til Hafnarfjarðar og neyðast því til að fara til Reykjavíkur og leita lækna, sem alls ekki eru skuldir að sinna þeim, og geta þar að auki krafist þeirrar borgunar sem þeim list; þeir eru ekki skyldir til að fylgja neinum taxta.

Jeg vil leyfa mjer að geta eins dæmis, sem kjósandi einn í Kjósarhreppi sagði á kjósendafundi síðastl. haust. Hann handleggsbrotnaði og fór úr liði samtímis, og eðlilega varð að leita læknis til Hafnarfjarðar, sem þá var eigi viðlátinn, svo úrræðin urðu að snúa sjer til Reykjavíkur. Meðan þessu fór fram varð maðurinn að þola og bíða. Hann sagði: Ef nokkrir alþingismenn hefðu orðið fyrir því að handleggsbrotna og fara úr liði hjer inni í Kjós um hátúnasláttinn, þá skil jeg ekki í, að þeir hefðu ekki fundið til samhygðar með þessum manni, og þá mundi hv. deild ekki hafa verið hikandi í því, hvað hjer ætti að gera.

Jeg vona að hjer þurfi ekki frekari skýringar og að hv. deild lofi málinu að ganga til 2. umr.; býst ekki við, að það komist hjá því að verða sett í nefnd, en kysi það þó helst.