18.02.1920
Neðri deild: 6. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

1. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Frsm. (Sveinn Björnsson):

Stjórnarskrárfrumvarp það, er hjer liggur fyrir, er frumvarp það, sem síðasta Alþingi afgreiddi. Var í þingbyrjun kosin sjerstök nefnd til að athuga það. Til hennar hefir síðan verið vísað þremur öðrum frv.

Þar sem þetta aukaþing er kvatt saman fyrst og fremst til að fjalla um þetta stjórnarskrárfrumvarp, taldi nefndin skylt að afgreiða það fyrst þeirra mála, sem til hennar var vísað.

Eins og kunnugt er, hafa bæði einstakir þm. og einstakir flokkar lýst yfir því fyrir síðustu kosningar, að samþykkja bæri frv. þetta óbreytt á þessu þingi. Voru allir nefndarmenn og á eitt sáttir um það. Ljet nefndin sjer því nægja að bera ítarlega saman texta frv., eins og það var samþykt á síðasta þingi, við texta frv. þess, er hjer liggur fyrir, og reyndust textarnir að vera nákvæmlega eins, að undanteknum lítilfjörlegum prentvillum, sem nefndin lagði fyrir að lagfærðar yrðu við næstu prentun. Nefndin leggur því einróma til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt nú.