19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

10. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Þorleifur Jónsson:

Jeg tek það fram, að þetta er ekki neitt stórmál frá mínu sjónarmiði, og hvað sjálfan mig snertir er mjer sama, hvernig það fer. En af því jeg hefi heyrt á ýmsum hreppstjórum, að þeir væru ekki ánægðir með þau laun, sem nú eru, þá tel jeg ekki rjett af mjer að standa í vegi fyrir þessari launauppbót. Launauppbótin, sem gerð var 1917, er að vísu góðra gjalda verð, þar sem hreppstjóralaun voru hækkuð úr 30–40 kr. upp í 80 kr., en 80 kr. nú eru eigi borgun fyrir meira en 6–7 daga vinnu, eftir almennum verkalaunum, en ærið mikill tími gengur þó í þetta starf. Starf hreppstjóranna mun víðast hvar taka að minsta kosti 2–4 vikna tíma á ári, og sjá því allir, að það sem hjer er farið fram á, nefnilega að dýrtíðaruppbót verði greidd hreppstjórum, er ekki ofmikil borgun, eins og nú standa sakir, og fanst mjer því alls ekki rjett af mjer að standa á móti þessu í fjárveitinganefndinni. Það hefir að vísu verið venja og er enn, að ýmsum störfum er hlaðið á alþýðumenn fyrir sáralitla eða alls enga borgun, en það bætir ekki úr skák. Jeg skal taka til dæmis skattanefndirnar. Með lögunum um tekjuskatt frá 1917 var starf skattanefnda aukið mjög mikið. Og er mjer kunnugt um, að skattanefndir hafa orðið að verja til starfa sinna 2 dögum, og alt upp að viku til sveita, og fyrir þetta fá þær ekki einn eyri. Sjá allir hve óhæfilegt er að níðast þannig á einstökum mönnum. Jeg mintist á það í fjárveitinganefndinni. hvort eigi væri tiltækilegt í sambandi við þetta frv. að ákveða skattanefndum einhverja þóknun. En það var álit nefndarinnar, að það væri eigi hægt, nema með því að breyta tekjuskattslögunum.