19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

10. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Hákon Kristófersson:

Jeg vil að eins leiðrjetta misskilning hjá hv. frsm. (M. P.). Jeg neita því ekki, að hreppstjórar ættu ekki að gjalda þess, að aðrir fengju ekki launahækkun, heldur leit jeg svo á, eins og hv. þm. Borgf. (P. O.), að þar sem önnur laun væru ekki hækkuð, þá mætti eins, að þessu sinni, ganga fram hjá launum hreppstjóra. Hjer á ekki að miða við þá, sem á undan eru komnir heldur við þá, sem eftir eru. Og óviðkunnanlegt að fara nú sjerstaklega að fást um laun hreppstjóra, þar sem svo stutt er síðan, að laun þeirra voru bætt að nokkrum mun. Háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) gat þess, að hreppstjórar myndu þurfa 3–4 vikur til að inna starfa sinn af hendi, en vart hygg jeg þann tíma nauðsynlegan til skýrslugerða og brjefaskrifta því með ákveðnum störfum hreppstjóra má ekki telja þann tíma er þeir þurfa til ýmsra framkvæmda er þeir fá ákveðna borgun fyrir. Laun þeirra frá hinu opinbera eiga að mínu áliti að miðast við þau störf, er þeir vinna án þess að fá borgun fyrir annarsstaðar frá. Hvað því viðvíkur, að mjer hrjósi hugur við að taka á móti laununum, þó þau væru hækkuð, þá skoða jeg það sem gaman hjá hv. frsm. (M. P.).

Jeg er á móti frv. sjerstaklega af þeirri ástæðu, að það nær ekki til fleiri starfsmanna og þar á jeg sjerstaklega við hreppsnefndaroddvita, er hafa að mínu áliti mun meira starf sem slíkir en hreppstjórar. Því hefir verið slegið fram hjer í hv. deild, að margir oddvitar fengju hærri laun en hin lögákveðnu. Þar sem, ef svo væri, engin lagaheimild er fyrir slíku, vil jeg ekki ganga út frá því, að svo sje.

Sú eðlilegasta bót á launum hreppstjóra teldi jeg að væri sú, að þeir hefðu, án íhlutunar sýslumanna, rjett til að halda öll uppboð, hver í sinni sveit, er fyrir koma, nema má ske stranduppboð. Út frá þessu held jeg að hafi verið gengið, þegar þingið hafði seinast mál þetta til meðferðar, enda munu flestir sýslumenn hafa það svo í framkvæmdinni, en aftur eru aðrir svo smásálarlegir, að þeir vilja halda uppboðin sjálfir, nærri því að segja hvað smá sem þau eru, sjá eftir innheimtulaununum.