24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

14. mál, stimpilgjald

Gunnar Sigurðsson:

Hv. þm. N.-Ísf (S. St.) minti mig á eina af rangfærslum hv. frsm. (M. G.) á fyrstu ræðu minni. Hann hjelt því sem sje fram, að jeg hefði sagt, að enginn almennilegur maður gæti verið þessu frv. meðmæltur. Þetta er annaðhvort af athugaleysi eða ásetningi algerlega rifið út úr samhengi. Jeg sagði, að allir almennilegir, sanngjarnir menn hlytu að telja það ranglæti, að greiða skatt af tjóni, eins og nú er altítt eftir núverandi skattalöggjöf. Þessa rangfærslu hv. frsm. (M. G.) henti svo háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hróðugur á lofti, og var það að vonum.

Þá skal jeg leiðrjetta þann misskilning hjá háttv. þm. Borgf. (P. O.), er hann hjelt því fram, að jeg vildi fella alt frv. í heild sinni; jeg er í sjálfu sjer ekki á móti seinni lið frv., um að skattleggja óþarfavarning, en jeg benti á örðugleikana með tollgæsluna og vildi því ekki hafa tollinn hærri en í mesta lagi 10%, til þess að menn freistuðust síður til þess að smygla. Þessu hefir þm. (P. O.) ekki tekið eftir.