26.02.1920
Efri deild: 13. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

14. mál, stimpilgjald

Frsm. meiri hl. (Guðjón Guðlaugsson):

Þetta mál hefir verið lagt fyrir fjárhagsnefnd þessarar deildar. Það átti nú ekki því láni að fagna, að nefndin yrði óskift um það. En þar fyrir eru skoðanir nefndarmanna alls ekki svo sundurleitar, heldur eru þeir, þvert á móti, að mörgu leyti sammála, til dæmis í því, að grundvöllur sá, sem hjer er lagður, sje mjög óheppilegur. Meiri hl. leggur ekkert á móti því, sem minni hl. hefir tekið fram í sínu nál. En við erum ósammála um, að stjórnin hefði ekki átt að gera eitthvað til að auka tekjurnar, því að fjárhag landsins er svo komið, að brýn þörf er á tekjuauka. Fjáreyðslan er svo ískyggileg, að ekki er hægt að reikna það alt út. Það getur verið, að stjórnin hefði getað fundið annan veg en þennan. Jeg vil þó ekki tala um það, þótt þessi grundvöllur sje óheppilegur, því að frv. þessu. er ekki ætlað líf nema til ársloka 1921 og ætlað að detta úr sögunni sama dag og hækkun á vörutolli. Það er ekki langur tími, en jeg hygg, að á þeim stutta tíma geti komið í ljós, hvort slíkt fyrirkomulag er til heilla eða óheilla. Það ætti að koma reynsla á, hvort það getur orðið til nota eða ekki. Aftur á móti er þessi tími svo stuttur, að engin hætta er á því, að mikið tjón geti hlotist af því.

Nefndin er í heild sinni sammála um, að rjett sje að benda á að fara ekki of langt í því að nota þennan grundvöll. Þó finst meiri hl. ekki áhætta að samþykkja frv., og viljum við leggja til, að það sje samþ. á þessu þingi, þótt stutt sje.

Brtt. eins háttv. nefndarmanns kom ekki fram í nefndinni, svo að jeg veit ekki, hvort samnefndarmaður minn hefir haft tíma til að athuga hana.

Það er mikið rjett, sem hv. minni hl. tekur fram, að það er mikill vandi að skera úr um, hvað er eingöngu til skrauts eða ekki. Innanstokksmunir eru einnig til nytja. Jafnvel hljóðfæri ekki til skrauts eingöngu, heldur til að æfa fólk í söng og hljóðfæraslætti. Mjer þykir það að brtt., að hún tekur að eins til lágmark 1%. Jeg vildi heldur óska að miðla þannig málum, að gjaldið yrði 5%. 15% finst mjer og nefndinni aftur of hátt. Jeg sem sagt greiði atkv. með frv., þótt jeg sje ekki á alt sáttur eða algerlega ánægður með það.