10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

Rannsókn kjörbréfa

Eiríkur Einarsson:

Að eins stutt athugasemd um sambandið á milli 1. og 2. þm. Reykvíkinga. Jeg get ekki fallist á þær skoðanir, sem komið hafa fram, að það sje hliðstætt dæmi, ef einhver fellur frá í tvímenningskjördæmi. Því þegar svo stendur á, að annar þingmaðurinn deyr eða fellur á annan hátt frá af óviðráðanlegum orsökum, þá er bandið höggið í sundur, án þess að nokkuð verði um gert, en hjer er vefurinn ekki sundur slitinn, en heldur áfram að vera samtengdur, þar sem ágallarnir liggja í hinni sameiginlegu kosningu beggja þm., en ekki persónulegum ástæðum annars.

Annars hefði mátt fresta ákvörðunum þangað til 3. kjörbrjefadeild hafði látið skoðun sína í ljós og komið fram með sínar tillögur.

Það hlýtur að vera meinloka hjá háttv. frsm. 3. kjördeildar (M. G.), að þingmenn sama kjördæmis geti ekki komið til kosningarannsóknir í sömu kjörbrjefadeild; því er ekkert til fyrirstöðu.