19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

22. mál, útborgun á launum presta

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma með þessa till. inn á þingið, vitandi það, að prestastjettin á hjer fáa formælendur úr sínum hóp, Mjer hefir borist það frá ýmsum embættisbræðrum mínum, að þeim þætti útborgun á launum sínum ekki eins góð og ákjósanlegt væri. Öðrum embættismönnum eru borguð út laun þeirra fyrirfram, en prestum missirislega og eftir á, og eru þeir því allmikið ver settir en aðrir embættismenn. Þetta er mjög svo undarlegt og óviðunandi. Þegar breyting var gerð á launakjörum embættismanna, munu prestar hafa vonað að fá að verða öðrum samferða, en það hefir ekki orðið. Hið gamla fyrirkomulag á útborgun prestlauna virðist því eiga að gilda framvegis. Jeg get ekki fundið neitt í gildandi lögum, sem ákveður það, að prestar skuli ekki fylgjast með öðrum embættismönnum í þessu tilliti. Það getur, undir mörgum kringumstæðum, verið bagalegt fyrir presta að fá ekki laun sín borguð fyr en seint og síðar meir.

Jeg vil ekki fjölyrða meira um þetta fyr en jeg heyri undirtektirnar. Jeg vona, að hæstv. stjórn taki þessu vel, og ef þetta fer í bága við ákvæði gildandi laga, þá vænti jeg þess, að á það verði bent, svo úr því megi bæta. Jeg hefi reynt að athuga það, en ekki getað fundið nokkurn lagastaf, sem stríðir á móti. Lög nr. 46, 16. nóv. 1907, um laun presta, geyma ekkert fyrirmæli, sem getur verið því til fyrirstöðu, að prestar fái laun sín greidd eins og aðrir embættismenn. Jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp 22. grein. Hún hljóðar þannig:

„Prófastur sendir landsstjórninni árlega skýrslu um tekjur þær, er prestar í prófastsdæminu taka undir sjálfum sjer, og um sóknartekjurnar eða niðurjöfnunargjaldið það árið, fyrir lok nóvembermánaðar, og greiðir landsstjórnin þá prófasti fyrir árslok úr prestlaunasjóði þá fjárhæð, sem samkvæmt skýrslunni vantar til þess, að prestarnir fái laun sín að fullu greidd fyrir það fardagaár

Samkvæmt þessum fyrirmælum ætti prófastur að geta sagt stjórninni fyrir hver árslok, hve mikinn hluta af launum presta prestlaunasjóður ætti að greiða, og ef eitthvað yrði samt sem áður of- eða vangreitt, þá mætti altaf jafna það upp. Jeg veit, að hag presta er svo farið, að það skiftir þá miklu, að þessu verði kipt í lag. Mjer er það kunnugt, að vegna þessa verða þeir jafnvel að taka lán upp á laun sín og það ef til vill með misjöfnum kjörum. Þetta ættu menn að geta sagt sjer sjálfir, ef þeir athuga, hvernig kjör presta eru nú. Það er satt, að prestar hafa oft tekjur af búum sínum, en það er eingöngu undir dugnaði þeirra komið, og kemur því opinbera ekki við. Og það er skrítið, ef þeir hjer ættu að gjalda dugnaðar síns. Yfirleitt mælir öll sanngirni með því, að prestar fái laun sín borguð eins og aðrir.

Jeg þykist ekki þurfa að fara frekari orðum um þetta mál. Það mun taka til þeirrar stjórnar, sem nú á að fara að setja á laggirnar, og jeg vona, að hún taki því vel.