27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Eiríkur Einarsson:

Það er af brýnni þörf, að beiðst er styrks til sjóleiðarflutninga milli Reykjavíkur og kauptúnanna austanfjalls. Eins og hv. deildarmönnum mun vera ljóst, tók fyrir allar hafsiglingar til Suðurlandsstrandarinnar á fyrstu stríðsárunum. Síðan hefir almenningur eystra orðið að búa við flutning frá Reykjavík með afarstopulum bátaferðum sjóleiðis eða landflutning um Hellisheiði. Þeir, sem til þekkja, vita hve slíkir aðdrættir eru erfiðir og undirorpnir mikilli tilviljun. Landleiðis er oft ófært, t. d. um þessar mundir, og þegar fært er á öðrum tímum, eru landflutningar svo dýrir, að þungavara kemst í það verð, að mönnum verður frágangssök að afla hennar eða kaupa. Jeg býst við, að nú kosti flutningur frá Reykjavík til Eyrarbakka landleiðina, ef fær væri, um 20 aura á hvert kíló. Að nota báta til þessara flutninga er því eini kleifi vegurinn. En þar er ekki hægt um hönd. Suðurland á að vísu að koma við á Eyrarbakka í þrem ferðum þessa árs. En skip þetta er mjög óhentugt til slíkra ferða, vegna brims fyrir ströndunum þar, og þess, hvernig hagar til að öðru leyti. Það kemur sennilega að svo litlum notum, að jeg býst við, að einu gildi, þó að Eyrarbakki yrði tekinn út af áætluninni. Skipið hefir svo takmarkaðan viðstöðutíma, að oft er ekki hægt að skjóta út báti vegna brimsins, og því síður að flytja í land þungavöru. Einu skipin, sem hæf eru til þessara ferða, eru hæfilega stórir mótorbátar, sem gætu legið til byrjar og skotist austur þegar vel gæfi. En að kosta báta sjerstaklega til vöruflutninga þennan veg yrði mjög dýrt; slík útgerð væri nauðsynleg, en langt frá því að vera arðvænleg, enda mætti hún ekki vera rekin í þeim tilgangi með tiltölulega háum flutningsgjöldum, því að nógir eru verslunarerfiðleikarnir þótt því væri stilt í hóf. Gæftir til milliferðanna yrðu auðvitað sömu dagana og helst gefur á sjó til fiskjar, svo að hvorugt mætti sitja á hakanum fyrir öðru, og því ómögulegt að láta fiskibáta annast þennan flutning af þessum ástæðum og fleirum. Einstakir menn austanfjalls, sem fyrirfarandi hafa látið báta sína skjótast til Reykjavíkur við og við til þess að sækja vörur, hafa engin tök á að annast flutningana með neinni reglu eða fullnægjandi. Það er hin almenna þörf, sem hjer þarf að sjá fyrir, og það er sú þörf, að hið mannflesta og víðlendasta af samfeldum sveitahjeruðum landsins eigi það ekki á hættu, eftir því sem slíkt verður trygt, að komast í algerð vistaþrot og vandræði þegar verst gegnir, er kemur okkur austanmönnum til að æskja þessa styrks, og tel jeg þær ástæður mega sín meira en það, hvort báturinn ætti t. d. að annast póstflutning, án þess að jeg á nokkurn hátt vilji gera lítið úr ástæðum annara, er æskja svipaðs styrks.

Jeg skal geta þess, að kaupfjelögum, verslunum og öllum almenningi eystra leikur mjög hugur á að geta haldið uppi bátaferðum eins og hjer er beiðst styrks til, en telja það ekki fært nema styrkur fáist. Veit jeg, að í þessar útvegur verður lagt, ef styrkurinn fæst, þótt ekki verði nema nál. 14000 krónur. Þörfin krafði miklu meira, en við færðum beiðnina niður í von um, að þessi lágmarksupphæð fáist því greiðlegar og hv. deild samþykki brtt.