28.02.1920
Efri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Björn Kristjánsson:

Um sendiherrann er það skemst að segja, að jeg hefi frá upphafi verið á móti fjárveitingu til þess embættis. Jeg hefi álitið það meira til að sýnast, en ekki búist við „praktiskum“ notum af því. Aftur á móti er miklu nær, að gerðir yrðu út verslunarerindrekar, eins og Norðmenn gera mikið að. Þeir gera mikið gagn. En okkur er nær og við þurfum sem mest að bæta efnahaginn inn á við, áður en við förum að gera út dýr en gagnslítil embætti, þó að fín sjeu. Það mundu verða eldri menn, sem falin yrðu sú staða, en þeir mundu alveg vera óhæfir til að þola loftslagið á Spáni og Ítalíu. Hins vegar væri sjálfsagt að velja unga efnilega menn til þess að verða verslunarerindrekar, sem vendust þegar á unga aldri við að þola loftslagið í þessum löndum. 3–4 slíkir erindrekar mundu ekki kosta landið meira en þessi eini sendiherra.