28.02.1920
Sameinað þing: 6. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

59. mál, aukning á starfsfé Landsbankans

Bjarni Jónsson:

Jeg skal taka það fram, að jeg er ekki að öllu leyti sammála háttv. flm. (Jak. M.). Að einu leyti er jeg honum sammála, og það er í því, að þörf sje á að auka starfsfje Landsbankans, og jafnvel auka það svo mikið, að allar aðrar peningastofnanir yrðu óþarfar. Jeg set traust mitt til þess fyrirtækis, sem landið á sjálft. En til þess verður það að vera svo úr garði gert, að mönnum sje óhætt að leggja fje í það. Og þá hygg jeg, að menn væru ánægðir með að leggja fje í bankann, og það væri nægileg trygging fyrir menn, ef bankinn væri undir ríkiseftirliti. Þó jeg bæri fram frv. um að gera bankann að hlutabanka, vænti jeg þess engan veginn, að það gengi fram. Annars get jeg ekki stilt mig um að láta í ljós skoðun mína á því, hversu óhyggilegt það er að hleypa af stað nýjum banka með hinum sömu hlunnindum, sem hinir bankarnir hafa. — Ef menn hikuðu við að gera bankann að hlutabanka, þá er þó ein leið, sem hægt er að fara, og hún er sú, að auka fjeð með lánum. Slíkt getur oft verið hættulegt. En hjer er engin hætta. Jeg vona, að till. nái fram að ganga, og vil skora fastlega á stjórnina að gera gangskör að því að auka starfsfje Landsbankans, eins og jeg hefi bent á, eða með einhverju jafngóðu eða betra.