14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (974)

2. mál, vatnalög

Eiríkur Einarsson:

Jeg gæti í rauninni fallið frá orðinu, því að flest af því, sem jeg vildi sagt hafa, hefir komið fram í ræðum hv. þm. Ak. (M. K.) og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). — Mjer finst aðferð sú, sem rökstudda dagskráin felur í sjer, óhæfileg við það stórmál, er hefir verið lagt hjer fram sem stjórnarfrv.

Jeg get fallist á það með hv. flm. dagskrárinnar (S. St.), að mál þetta er að mörgu leyti óathugað. En í sambandi við það þykir mjer ekki rjett að vísa því frá með rökstuddri dagskrá; mjer virðist einmitt því meiri þörf á að fela málið sjerstakri nefnd, sem væntanlega yrði skipuð mönnum úr hinum ýmsu flokksbrotum í þinginu. Jeg læt það í sjálfu sjer liggja milli hluta, hvort málið verður afgreitt á þessu þingi. En jeg veit, að kjósendur í Árnessýslu — og þeir ættu að hafa glöggasta tilfinningu fyrir þessu máli — ætluðust til, að þetta þing sýndi málinu fulla alúð, þótt þeir byggjust ekki við, margir hverjir, að það rjeði því til lykta. En því er ekki sýnd alúð með því að „humma“ það fram af sjer með rökstuddri dagskrá. — Þjóðin þarf að glöggva sig betur á málinu, og hvaðan á að mega vænta nánari upplýsinga, ef ekki einmitt frá þinginu? Jeg vil alls ekki leggja það til, að málið verði útkljáð á þessu þingi; en jeg vil, að því sje sýnd alúð með því að fela það sjerstakri nefnd til nánari athugunar.