13.02.1920
Efri deild: 3. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (996)

11. mál, sérleyfi til hagnýtingar á orkuvötnum og raforku

Forsætisráðherra (J. M.):

Frv. þetta er nú óbreytt eins og það var lagt fyrir síðasta þing. Þá var að vísu ekki mikið við það gert, heldur var, ef svo mætti segja, því vísað til stjórnarinnar aftur, og því barið við, að búningur þess væri ekki sem heppilegastur. Auðvitað má deila um málfærið á frv., en ekki get jeg viðurkent það, að það sje þannig, að hið háa Alþingi hafi ástæðu til að vísa frv. á bug þess vegna. Frv. er samið af lagadeild háskólans, og þykir mjer rjett, að það komi fram í þeim búningi, sem það þar hefir fengið.

En jeg vona, að háttv. deild láti þetta ekki verða því til hindrunar, að taka frv. nú til athugunar, þótt tilmælum síðasta þings að þessu leyti hafi ekki verið sint, enda er þeim hv. þm., sem nú skipa allsherjarnefnd þessarar hv. deildar, vel trúandi til þess að breyta búningi frv., ef þurfa þykir. — Hins vegar býst jeg ekki við því, að frv. verði breytt mikið að efni til. Það er svo vel hugsað og undirbúið, bæði af aðalhöfundi þess hjer og þeim nefndum á Norðurlöndum, sem samið hafa frv., sem hann hefir farið eftir, að hjer verða sennilega ekki gerðar á því stórfeldar breytingar eða bætur, þótt einstök atriði geti auðvitað valdið ágreiningi.

Alveg sama máli er í rauninni að gegna um hin tvö stjórnarfrv., sem nú eru á dagskrá, og þarf jeg því ekki frekar um þau að ræða að sinni. En þegar væntanlegar brtt. koma frá nefndinni, er fyrst tími til að ræða einstök atriði.