25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

10. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) sannaði orð mín um það, hve takmarkaður síldarmarkaðurinn væri, með því að segja, að ekki hefði verið hægt að selja nema nokkurn hluta síldarinnar, sem veiddist hjer 1919.

Sami hv. þm. (J. A. J.) hjelt því fram, að síldarútvegurinn dragi ekki til sín margt fólk frá öðrum atvinnuvegum. (J. A. J.: Jeg sagði svo vera á Ísafirði). Það sannar ekkert, þótt slíkt megi ef til vill segja um einn stað á landinu. Því er ekki hægt að neita, að margt fólk frá öðrum atvinnuvegum stundar þessa atvinnugrein. Aftur á móti hjelt hv. þm. Ak. (M. K.) því fram, að þröngt mundi verða fyrir dyrum hjá bændum, ef alt síldarfólkið hyrfi til þeirra. Það verður því ekki hægt að neita því, að rökin, sem þessir háttv. þm. nota til að sanna ágæti síldarútvegarins, sjeu harla gagnstæð.

Þá leit háttv. þm. Ak. (M. K.) svo á, að eignir síldveiðamanna yrðu ónýtar, ef síldarútgerðin hætti. Þetta er ekki annað en að gera úlfalda úr mýflugu, og því óþarft að svara því.

Um endurgreiðslu á stimpilgjaldi fjölyrði jeg ekki nú. Það mál liggur ekki hjer fyrir. En slíkt dæmi, sem háttv. þm. (M. K.) nefndi, mun ekki koma fyrir framvegis, ef nýju stimpillögin verða nú samþykt hjer á þinginu. Annars er ekki til neins fyrir þennan háttv. þm. (M. K.) að láta það í veðri vaka, að hann geti ekki svarað, af því að hann skilji ekki hugsanagang minn. Jeg veit, að hann skilur hann vel, en svarar ekki, af því að hann vantar rök til að hrekja mál mitt með.