23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

41. mál, fjárlög 1922

Sveinn Ólafsson:

Jeg á dálitla brtt við 16. gr., á þskj. 359, og skal takmarka orð mín að mestu við hana, þótt hins vegar sje einnig úr miklu að moða um brtt. háttv. nefndar og einstakra þingmanna, og jeg sje þar víða á öðru máli en flytjendur. En tíminn er af skornum skamti og leyfir ekki að rekja þær nákvæmlega.

Brtt. mín fer nú, í stuttu máli sagt, fram á það, að á eftir heiðurslaunum þeim, sem ætluð eru Sig. hreppstjóra Ólafssyni, í 30. lið 16. gr., verði bætt jafnháum heiðurslaunum til tveggja stjettarbræðra hans á Austurlandi, þannig, að þeir fái 1000 kr. hver, eða að allur liðurinn verði 3000 kr., í stað 1000 kr. Jeg afhenti á öndverðum þingtímanum háttv. fjvn. ýms plögg þessu viðvíkjandi, og þar á meðal vottorð frá 2 sýslumönnum í Suður-Múlasýslu og öðrum um verðleika þessara manna, ágætum meðmælum. En hún hefir daufheyrst við ósk minni. Annar þessara manna, Einar Jónsson á Nesi, hefir í 32 ár verið hreppstjóri á sama staðnum og haft margfalt meiri störf en hreppstjórar alment hafa, þar sem hann hefir í rauninni verið lögreglustjóri í fjölmennasta kauptúni austanlands, og þar sem fjölsóttast er af útlendingum, en sýslumaður kemur sjaldan, vegna fjarlægðar, torfæra og annara staðhátta. Þess vegna hefir Einar orðið að ganga í stað sýslumanns um flest, gjaldheimtur miklar og annað, einnig að kynna sjer talsvert útlendar tungur, vegna sífeldra viðskifta við útlendar þjóðir, sem leita hafnar á Norðfirði, og mælir Einar sæmilega bæði ensku og frönsku. Nú er maðurinn aldurhníginn og fjelítill, og hefir fyrir sitt langa starf, sem alveg jafngildir starfi sýslumanna á fámennum stöðum að erfiðleikum, aldrei notið annars en þóknunar þeirrar, sem hreppstjórum er ætluð í afskektum sveitum, og er síst hjer til mikils mælst.

Hinn hreppstjórinn, Jón P. Hall, er á áttræðisaldri, hefir verið hreppstjóri um 30 ár í yfirsóknarerfiðu og víðlendu hjeraði, og lætur af hreppstjórn á þessu ári sakir ellilasleika, þótt ungur sje hann í anda. Fje hefir hann ekki safnað við þennan 30 ára starfa, því að meðaltalslaun hans á ári hafa víst verið um 50 kr. allan tímann. En allir, sem þekkja þennan gamla sveitarhöfðingja, munu sammála um, að starfann hafi hann leyst mætavel af hendi, eins og líka áðurnefnd vottorð sýslumannanna sýna.

Sumir finna það þessari brtt. minni til foráttu, að hún gefi ilt fordæmi og að á eftir muni koma fjöldi hreppstjóra. Þetta getur verið; en því er til að svara, að fordæmið er skapað áður, því bæði var slík viðurkenning veitt hreppstjórum 1919, og einnig er það gert nú í fjárlögum við Sig. Ólafsson. En sannast að segja hafa ýmsir þeir, sem styrks njóta í fjárlögunum, síður unnið til slíkra launa en hreppstjórar, sem rækt hafa erfitt starf í mörg ár í þarfir þjóðarinnar, svo gott sem kauplaust. Jeg að minsta kosti verð að telja störf margra þessara gömlu hreppstjóra eigi notaminni nje ómerkari en t. d. þýðing á Faust, jafnvel þó háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) hafi lagt hana til jafns við ritninguna og Passíusálmana. En ummæli hans um Faust mun þó fremur hafa átt að skilja sem meðmæli með annari fjárveitingu, sem snerti hann sjálfan og sem fjell hjer í deildinni.

Að lokum verð jeg að geta þess, að þessi litla till. mín er eina fjárbeiðnin í þessum fjárlögum, sem bundin er við nafn úr Austfjörðum. (M. P. : Þjóðsagna-Sigfús). Já, að henni fráskilinni, en hún er gömul. Það væri því lítil sanngirni sýnd með því, að fella brtt. mína, eins freklega og fje er nú ausið í allskonar liðljettinga og landshornamenn, enda verð jeg að líta svo á, sem þessir tveir ágætismenn gjaldi mín hjá háttv. fjvn. og andstöðu minnar við háttv. frsm. (B. J.), og sje með því misboðið.