30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

41. mál, fjárlög 1922

Jakob Möller:

Það mun ekki vera þakklátt verk nú að mæla fram með till., sem hafa útgjaldaauka í för með sjer, en jeg neyðist samt til þess, því að jeg á hjer brtt. í þá átt. Hafa bæði háttv. frsm. fjvn. (B. J.) og hæstv. fjrh. (M. G.) tekið henni fremur vel, og er jeg þeim þakklátur fyrir. Tillagan er um hækkun launa sendiherrans í Kaupmannahöfn. Aðaltill. fer fram á 20 þús. kr., en varatillagan 16 þús. kr. Vil jeg minna á það, að á þinginu í fyrra var samþykt í Nd. að hækka laun sendiherrans upp í 17–18 þús. kr., en hækkunin var feld í háttv. Ed. Skal jeg í sambandi við þetta geta þess, að launin munu upphaflega hafa orðið svona lág af alveg sjerstökum ástæðum, sem sje sökum þess, að stofnun þessa embættis vakti allmegna mótspyrnu, og mun hafa verið ætlast til að gera hverjum manni óviðunandi að taka embættið að sjer. (P. O.: Stjórnin sagði að launin væru nóg). Hún er þá komin að annari niðurstöðu nú, því að henni dylst eigi, að maðurinn verður að leggja með sjer af sínu fje. Enn fremur hygg jeg, að það sje rjett, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að kringumstæður þessa manns, sem hjer á hlut að máli, sjeu orðnar það breyttar nú, að síður væri verjandi að hafa launin svona lág. Er það og athugandi, að þótt mótspyrna væri móti þessu embætti í fyrstu, þá munu nú allir vera sammála um þörf þess, enda kemur mönnum saman um, að valið á manninum hafi vel hepnast, og ætti það að bæta fyrir till. minni. Annars held jeg, satt að segja, að þessar svartsýnu ræður um fjárhagsútlitið, sem hjer hafa verið haldnar, sjeu tilgangslitlar. Er jeg heldur ekki viss um, að þær hafi við svo mikil rök að styðjast, að ástæða sje til að láta þær fæla sig frá því að sinna svo sjálfsagðri sanngirniskröfu, sem hjer er á ferðinni. Verður að gæta þess, að þetta eru fjárlög fyrir næsta ár, en ekki það yfirstandandi, og getur margt skipast til betri vegar á þeim tíma. Er erfitt að segja um útkomuna á þessu ári, en þó erfiðara fyrir árið 1922.

Háttv. samþm. minn (J. Þ.) áætlaði, að útfluttar vörur myndu á næsta ári svara til þess, sem þær voru 1918, eða tæplega það. En þetta getur tæplega staðist, því að líkindi eru á, að þær verði talsvert meiri. Togurum hefir fjölgað mikið síðan; tala þeirra nálega tvöfaldast; framleiðsla er því líkleg til að aukast svo mikið, að töluvert hamli upp á móti verðfalli afurðanna. Sýnist mjer, sem ofmikið hafi verið að því gert að mála útlitið sem ískyggilegast, og vona jeg, að menn láti eigi það fá altof mikið á sig, þegar um smávægilegar og sanngjarnar fjárveitingar er að ræða.