30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

41. mál, fjárlög 1922

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á tvær brtt. á þskj. 426. Þær hafa ekki fundið náð hjá háttv. fjárveitinganefnd, þrátt fyrir það, þótt önnur hafi engin útgjöld í för með sjer. Aðeins skilgreining um það, hvernig styrknum til unglingaskólanna skuli útbýtt.

Háttv. frsm. (M. P.) sagði, að jeg vildi miða hann við kunnugleika háttv. deildarmanna. Það hefi jeg aldrei sagt, og ekki hefi jeg heldur dregið taum míns hjeraðs. Þvert á móti. Heldur einungis fylgt þeirri reglu, að aðalskólunum væri veitt viss fjárupphæð.

Mjer þætti nú fróðlegt að vita, hvort fjárveitinganefndin hefði leitað til fræðslumálastjóra um hækkun á styrk þessum, því að jeg bjóst eindregið við því, og einmitt með það fyrir augum bar jeg fram brtt. á þskj. 426.

Af vissum ástæðum fór jeg til fræðslumálastjóra, til þess að leita upplýsinga hjá honum, og fekk þá að vita, að fjárveitinganefndin hefði ekki leitað til hans.

Mjer finst þetta nokkuð undarlegt, sjerstaklega þegar þess er gætt, að skólum þessum fækkar, því að nú eru eigi nema 6 starfandi, fyrir utan skólana í Hafnarfirði og Akureyri. En vitanlega getur þeim fjölgað þegar dýrtíðin minkar, en þrátt fyrir það býst fræðslumálastjóri ekki við, að þeir verði orðnir fleiri en 10 árið 1922.

Jeg býst ekki við, að það hafi verið tilgangur nefndarinnar, að öll upphæðin væri notuð, ef ekki væru starfræktir nema 6 eða 7 skólar á árinu 1922. Því að það væri allríflegt fjárframlag. Hver skóli myndi þá fá svo sem 6 þús. kr. Jeg vissi ekki, er jeg kom með brtt., að skólarnir væru svona fáir, og hjelt, að þeir væru 10, og með það fyrir augum bar jeg fram brtt. mína, því að sjálfsögðu hefði jeg verið á móti styrkhækkuninni, ef jeg hefði vitað alla málavöxtu, þó að eitthvað af honum komi til góða mínu kjördæmi. Fari nú svo, að aðeins 6 skólar verði starfræktir næsta ár, virðist ekki óþarfi að ákveða styrkupphæðina til hvers skóla, því að afgangurinn yrði þá eftir í ríkissjóði, sem jafnframt væri heimilað að borga út, ef þörf krefði.

Þá er önnur brtt. á sama þskj., XXVII., sem jeg vil fara um nokkrum orðum. — Háttv. fsrm. (B. J.) gat þess, að aðalstefna fjvn. væri sú, að veita ekki styrk til húsa, sem ekki væri farið að byggja. En ef háttv. nefnd hefði haft svo mikið við, að lesa skjöl þau, er hún fjekk þessu viðvíkjandi, hlyti hún að hafa sjeð, að þegar er búið að verja til þessarar byggingar um 40 þús. krónum. Mjer þykir því ærið undarlegt samræmi í niðurstöðu háttv. nefndar, er hún leggur til, að gistihúsinu í Hafnarfirði verði veittar 5000 krónur, en gistihúsinu á Ísafirði ekki neitt. Þó hefði nefndinni átt að vera kunnugt, ef hún hefði kynt sjer skjölin, að þetta gistihús hefir notið meiri styrks, bæði frá einstökum mönnum og bæjarfjelaginu, heldur en þetta Hafnarfjarðargistihús. Því að það hefir fengið frá bæjarfjelagi Ísafjarðar 5000 krónur frá sýslufjelagi Norður-Ísafjarðarsýslu 4000 krónur og frá einstökum mönnum um 30 þúsund krónur. Þetta er tvöfalt við það, sem lagt er til gistihússins í Hafnarfirði.

Jeg hafði því vonað, að nefndarmenn, sem kunnugir eru á Vestfjörðum, mundu líta með sanngirni á þetta mál. Því að Ísafjörður er, eins og allir vita, einn hinn mesti sjómannabær á landinu, því að þangað koma, auk innlendra sjómanna, fjöldi erlendra sjómanna. Það er því hvergi eins brýn þörf á sjómannahæli eins og þar, að undantekinni Reykjavík. Ísafjörður er líka miðstöð Vestfjarða, frá Bitrufirði að Gilsfirði, þar sem þangað sækir fólk af öllu þessu svæði, til þess að ná í skipsferðir o. s. frv. Og besta sönnunin fyrir þessu er framlag sýslusjóðs Norður-Ísafjarðarsýslu, því að þeir hafa engin not gistihússins önnur en til gistingar, og það er þeim svo mikið áhugamál, að þeir leggja fram 4000 kr. til þess að koma því upp.

Hæstv. fjrh. (M. G.) mælti á móti þessari styrkveitingu, af því að hann vildi ekki gefa með því fordæmi til þess að styrkja gistihús. En hæstv. ráðh. (M. G.) mintist ekki á þetta, þegar verið var að tala um styrkinn til gistihússins í Hafnarfirði. Jeg sje því ekki annað en að hjer sje búið að gefa fordæmi, með styrkveitingunni til gistihússins í Hafnarfirði, og því sje ekki hægt að sakast um orðinn hlut. Jeg verð því að telja það ærið mikið ósamræmi í tillögum fjvn., ef hún getur verið að leggja á móti þessari fjárveitingu, sem virðist hafa fult eins mikinn rjett á sjer eins og fjárveitingin til Hafnarfjarðargistihússins. Og fari deildin sömu leið, get jeg ekki skilið, hvað til grundvallar liggur.

Það er síður en svo, að jeg sje að andmæla fjárveitingunni til gistihússins í Hafnarfirði; en það er einmitt það, að mjer finst eins mikil sanngirni vera í því, að styrkja gistihús á Ísafirði. Því að gistihús Hjálpræðishersins eru meira notuð af almenningi en önnur gistihús, því að þau eru svo miklu ódýrari. Er því eigi hægt að telja fje því á glæ kastað, sem varið er til að styrkja þau, því að þau eru alls ekki rekin í gróðaskyni.

Þá vil jeg snúa mjer að brtt. háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) á þskj. 426. X. lið. Jeg er honum fyllilega samdóma um það, að ekki sje rjett að stofna til bæjargerðar í Reykholti, með það fyrir augum að fylgja áætlun, sem gerir ráð fyrir því, að bærinn kosti alt að 100 þús. kr. Slíkt er tæplega leggjandi út í á þessum tímum.

Þá er 26. liður áðurnefndrar brtt., um 45 þúsund króna styrk til björgunarskipsins „Þórs“ í Vestmannaeyjum. Jeg hefði talið miklu heppilegra að nota skipið eitthvað, og á þann hátt ljetta undir með Vestmannaeyingum. Jeg er t. d. viss um, að mikill styrkur hefði verið fyrir þá, ef hægt hefði verið að nota skipið til landhelgisgæslu fyrir Norður- og Vesturlandi; hefði það verið rjett, til þess að ganga úr skugga um það, hvort skipið er nothæft til landhelgisgæslu eða ekki. En að veita slíka upphæð til útgerðarinnar, get jeg ekki verið með.