07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjvn. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg ætla fyrst að víkja örfáum orðum að háttv. 3. landsk. þm. (S. J.). Hann talaði um styrkveitingu til skurðgraftar í Miklavatnsmýri. Jeg kannast við að hafa sjeð, að verkfræðingur landsins hafi mælt með 4800 kr. fjárveitingu, en það er víst, að þingið veitti einungis 3000 kr. til þessa, og þess vegna vildi fjvn. ekki mæla með þessu, en leit á það sem lokaveitingu. Í öðru lagi var það, að gögn þau, sem lágu fyrir nefndinni, báru vott um, að verkfræðingurinn var ekki að öllu leyti ánægður með reikninga þá, sem lagðir voru fram af hlutaðeigendum yfir kostnað við starfið.

Þá er það háttv. 2. landsk. þm. (S. E.), sem talaði nm fjárveitingu til aðstoðarmanns við Landsbókasafnið. Í fjárlögunum er tekin upp 1000 kr. fjárveiting til aðstoðar á lestrarsalnum í Landsbókasafninu. Nú sækir sá maður, sem hafði stöðuna á höndum, um, að sjer sjeu veittar 1500 kr., að viðlagðri dýrtíðaruppbót, eða samtals 3300 kr., en það er vitanlegt, að þetta kaupgjald miðast við það starf, sem hann hingað til hefir leyst af hendi, en ekki við allan starfstíma Landsbókasafnsins. Nú hefir það orðið að samningum við háttv. Nd., að honum sjeu veittar 2000 kr. auk dýrtíðaruppbótar, eða samtals 4400 kr., en nefndinni þótti þá rjett að ætlast til meira starfs af honum, og hafði þar að auki fengið bendingu um, að það væri mjög æskilegt, ef svo væri ákveðið.

Það viðurkenna allir, að þetta er nýtur maður og gætir starfsins vel; þar er jeg alveg sammála hv. 2. landsk. þm. (S. E.), en jeg get ekki sjeð, að nokkuð sje illa til mannsins gert með þessu.

Um tillögu hans um að styrkurinn til Helga Jónssonar sje 3000 kr., eins og var í háttv. Nd., en ekki 2000 kr., eins og nefndin leggur til, sje jeg enga ástæðu til að þræta. Slíkt getur ætíð verið álitamál. En jeg vil þó aðeins benda á, að þar sem það er fastur kennari, sem styrksins á að njóta, þá er þetta ærið hár styrkur, sem hjer er farið fram á. En sjerstaklega finst mjer þetta athugavert af þeirri ástæðu, að menn, sem hafa tekið við embætti hafa orðið að sleppa þeim styrk, sem þeir áður nutu. Og jafnvel þó að styrkurinn verði ekki hærri en 2000 kr., þá get jeg ekki sjeð, að til hans sje að nokkru leyti illa gert.

Ennfremur talaði hann um 10 þús. kr. fjárveitingu til leiðbeiningar um raforkunotkun, og vildi taka þá tillögu upp aftur, sem nefndin hafði tekið aftur. Jeg skal geta þess, að nefndin tók þá tillögu aftur til 3. umræðu vegna bendinga, sem hún hafði fengið frá stjórninni um, að vert væri að athuga þetta í sambandi við vatnalöggjöfina.

Okkur ber lítið á milli um ábyrgð á lánsfje handa Seyðisfjarðarkaupstað. En jeg ber kvíðboga fyrir því, að ekkert fje verði hægt að lána, og það verði einungis um ábyrgð að ræða. Jeg get ekki sjeð, að þetta orðalag geri nokkurn skaða og það sje nokkur ástæða til að greiða atkv. á móti till. þess vegna , svo framarlega, sem menn vilja veita ábyrgð fyrir láninu á annað borð.

Þá eru það loks nokkur orð til háttv. þm. Vestm. (K. E.). Hann hefir einlægt „Þór“ í stafni, og er það síst láandi, enda viðurkennir nefndin, að hann geri gagn, með því að mæla með 30 þús. kr. fjárveitingu. Væri það líka óforsvaranlegt, ef nefndin legði til að veittar væru 30 þús. kr. til skipsins, ef hún áliti að hann gerði ekkert gagn. Það er því mjög leiðinlegt að heyra háttv. þm. (K. E.) einlægt vera að færa rök að gagnsemi hans. Það veltur ekki á því, heldur hve fjárveitingin eigi að vera mikil 1922. Jeg spyr því, hvað lengi eigi að halda skipinu út. Einkennilegt er það mjög, að fara að lesa upp símskeyti um, að bæjarstjórn Vestmannaeyja hafi ákveðið að halda út þennan eða þennan tíma, að þá sje sjálfsagt, að þingið veiti fje samkvæmt því. Með öðrum orðum: Það á að flytja fjárveitingavaldið til bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum, en úr þessum sölum.

Jeg ætla mjer ekki að fara að deila mikið við búfrömuðina, háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) og hæstv. atvrh. (P. J.), um styrkveitinguna til búnaðarfjelaganna.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) gerði mjög lítið úr því gagni, sem styrkurinn gerði, væri honum skift upp. Jeg álít, að það sjeu miklu fleiri en fátækir menn, sem gleðjast yfir að fá þessa peninga. Það hefir óneitanlega verið hvöt til framkvæmda, og þessi „sameiginlega starfsemi“ er ekki góður fjelagsskapur, ef ekki er hægt að halda honum uppi án þess að ríkið leggi fram fje til styrktar. Jeg hefi haft þann heiður að vera formaður búnaðarfjelags, og skiftum við styrknum upp, en höfðum þó sameiginlega starfsemi, t. d. keyptum við mikið af erlendum áburði í sameiningu. Þessi styrkveiting á því ekki að vera skilyrði fyrir sameiginlegri starfsemi. Að styrkurinn eigi að falla niður, það vil jeg ekki fara út í, enda liggur það ekki fyrir nú, og jeg hefi hvorki hvöt hjá sjálfum mjer, nje heldur leyfi til annars en að mæla með þeim brtt., sem nefndin hefir samþ. og bornar hafa verið fram í deildinni.