11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

41. mál, fjárlög 1922

Einar Árnason:

Jeg ætla aðeins með nokkrum orðum að gera grein fyrir þessari brtt., sem jeg hefi komið hjer fram með.

Þessi brtt. fer fram á að hækka fjárveitinguna til tímakenslu við gagnfræðaskólann á Akureyri úr 1800 kr. upp í 4800 kr.

Eins og mönnum er kunnugt höfum við Norðlendingar átt því láni að fagna að hafa við þann skóla einn ágætasta skólamann og kennara þessa lands. Á jeg hjer við Stefán heitinn skólameistara, sem alla þá stund, er hann var við skólann, kendi náttúrufræði og leysti það starf af hendi með þeirri prýði, sem þjóðkunn er orðin. Má með sannindum segja, að náttúrufræðikensla hans hafi varpað ljóma á gagnfræðaskólann norðanlands. En nú er þessi maður fallinn í valinn, og má segja, að með honum sje náttúrufræðikensla norður þar líka fallin í valinn, því að þó að þeir kennarar, sem nú eru við skólann, sjeu góðir á sínum sviðum, eru þeir hvergi nærri færir um að halda uppi kenslu í þessari námsgrein, svo að í námunda sje við það, sem Stefán heitinn gerði. Það virðist því nauðsynlegt, svo framarlega sem skólinn á ekki að bíða stórhnekki við fráfall þessa manns, að útvega mann til skólans, sem leyst geti starfið svo af hendi, að viðunandi sje. Og það vill nú einmitt svo vel til, að völ er á slíkum manni, þar sem er Guðmundur Bárðarson frá Kjörseyri. Ætla jeg, að hann muni gefa kost á sjer, ef þessi fjárveiting fæst, sem brtt. mín hljóðar um.

Norðlendingar telja það nauðsynjamál, að halda uppi gengi þessa skóla, og þótt það þyki máske djúpt tekið í árinni, þá vil jeg segja það, að ef náttúrufræðikenslan við skólann er ekki í lagi, þá eru áhrif skólans í veði.

Jeg býst við, að háttv. þdm. sje það ljóst, hvílíka þýðingu þessi skóli hefir haft fyrir alt landið, og vænti þess því, að þeim verði það ljúft að styðja hann hjer að málum.