14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

41. mál, fjárlög 1922

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg mun vera skammorður, því að jeg ætla aðeins að drepa fám orðum á till. háttv. fjárhagsnefndar. Jeg tel, að áætlun hennar sje mjög varleg, og mundi jeg telja óhætt að áætla tekjurnar hálfri miljón kr. hærri en hún hefir gert, og eru það þessir liðir, sem mjer virðist mega hækka:

Tekjuskattur ...... kr. 100.000

Tóbakstollur ...... — 100.000

Símatekjur......... — 100.000

Vörutollur ........ — 200.000

Kr. 500.000

og skal jeg rökstyðja þetta nokkru nánar.

Eftir minni áætlun yrði tekjuskatturinn ekki hærri en hann var 1920, og set jeg þá hækkun þá, er leiðir af hinum nýju tekjuskattslögum, á móti því, sem tekjur verða minni 1921 en 1918, og er það ekki óvarlegt.

Tóbakstollurinn var 1919 rúm 700 þús. kr., og ef ekki verður heftur innflutningur 1922, sem vjer vonum, ætti ekki að vera óvarlegt að áætla hann eins 1922.

Símatekjurnar vil jeg áætla eins og þær voru 1920, og er það varlegt, þar sem þær fara stöðugt hækkandi.

Vörutollurinn var 1920 um 1.200.000 kr., þrátt fyrir innflutningshöftin, og ætti því 1922 að geta orðið um 11/2 milj. kr. með kola- og salttolli.

En jeg virði þessa stefnu háttv. fjhn., að áætla varlega, og skal því ekki fara frekar út í brtt. hennar, en vildi aðeins geta þessa, til að sýna, að jeg lít ofurlítið bjartari augum á þetta en hún virðist gera. Samt viðurkenni jeg það, að það er erfitt að spá fram í tímann, og það gæti máske farið svo, að það reyndist rjett, sem háttv. fjhn. hefir sagt í þessu efni.