19.05.1921
Efri deild: 73. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

41. mál, fjárlög 1922

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg tók það fram, að mjer skildist meining nefndarinnar vera sú, að ekki ætti að leggja ríkissjóð í neina hættu út af ábyrgðinni fyrir botnvörpungana. Jeg býst því við, að stjórnin muni af fremsta megni reyna að fara eftir þeim takmörkunum, sem settar eru í nál.

Út af því, sem háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) sagði, að fjárlögin væru minnismerki þings og stjórnar, þá vil jeg endurtaka það, að jeg tel þó þingið bera meiri ábyrgð á því, hvernig sá minnisvarði er, heldur en stjórnina, því að eins og stjórnin lagði fjárlagafrv. fyrir þingið, ásamt tekjuaukafrv., þá hefðu fjárl. orðið tekjuhallalaus, ef þau hefðu verið samþykt í líku horfi og stjórnin lagði þau fyrir þingið.

Þá hjelt háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) því fram, að tekjuhallinn yrði áreiðanlega meiri en fjárlögin bera nú með sjer. En jeg verð að telja þetta aðeins spádóm, og jeg minnist þess, að við spáðum eitt sinn báðir um útlitið fyrir árið 1919, og þá reyndist minn spádómur rjettari; en annars legg jeg spámannshæfileika okkar að jöfnu.

Þá vildi háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) halda því fram, að rjett hefði verið að fella burtu tekjur af skipum. En þar er jeg á öðru máli, því að jeg hlýt að búast við, að skipin verði ekki ómagar 1922. Enn fremur taldi hann, að vörutollurinn væri áætlaður of hátt, en jeg skal upplýsa það, að hann er nú áætlaður eins og hann varð árið 1920, og þá voru þó innflutningshöftin, sem mjög drógu úr öllum innflutningi, og svo bætist kola- og salttollurinn þar við, sem áður hefir eigi verið þar með talinn. Jeg vil því halda því fram, að vörutollurinn sje heldur of lágt áætlaður heldur en of hátt.

Þá talaði háttv. þm. (S. E.) um, að áætlanir þær, sem Nd. gerði á tekjuhliðinni, væru alt toppáætlanir. Jeg vil því spyrja: Er það toppáætlun að áætla erfðafjárskattinn 20 þús. kr., og er það toppáætlun að áætla símatekjurnar lægri en þær urðu 1920, þegar tekið er tillit til þess, að þær tekjur hafa altaf farið vaxandi ár frá ári. Annars er áætlun teknanna í raun og veru ekkert aðalatriði. Aðalatriðið er vitanlega að draga úr gjöldunum, og á það ber að leggja alla áherslu, og ef það tekst ekki í framtíðinni, er voði fyrir dyrum.