03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pjetur Þórðarson:

Jeg ætlaði nú ekki að tala alment um þetta mál, en datt hins vegar í hug að spyrja háttv. fjhn., hvort ekki hefði komið til athugunar í nefndinni ákvæði frv. í 10. gr. um tekjur þær, sem undanþegnar eru skatti, eða sjerstaklega d.-liður 10. gr., er jeg hafði áður minst á við háttv. nefndarmenn, en það er að fella niður dagpeningana. Mjer hefir fundist sjálfsagt að fella þennan lið niður, því að mjer virðist ekki áhorfsmál, að dagpeningar teljist með þeim tekjum, sem eru skattskyldar.

Jeg hafði hugsað mjer að koma með brtt. í þessa átt, þó að það hafi farist fyrir, en hafi nefndin athugað þetta og ekki getað fallist á mína skoðun, þá mun jeg koma með brtt. við 3. umr. málsins.

Þetta ákvæði laganna, um að undanskilja tekjuskatti dagpeninga þeirra manna sem ferðast, er auðvitað skilið á ýmsan hátt. Sumir telja slíka dagpeninga alls ekki með tekjum sínum, eða draga þá frá, en aðrir telja þá með tekjunum, enda hefir það svo verið í reyndinni, að mörgum hefir þótt rjettmætt að telja þá með öðrum tekjum, og þar af leiðandi greiða skatt af þeim, því að þeir líta svo á, að þessir peningar sjeu ekkert rjetthærri heldur en aðrir, sem greiddir eru úr ríkissjóði fyrir opinber störf.

Jeg skal t. d. nefna þingmann, sem fær dagpeninga hjer í Reykjavík; þessir dagpeningar eru ef til vill miklu hærri en þeir dagpeningar, sem hann fær fyrir aðra dagvinnu heima í hjeraði, og því ranglátt að telja þá ekki með öðrum skattskyldum tekjum.

Að þetta ákvæði hefir verið sett í frv. hygg jeg fremur stafi af gamalli venju heldur en því, að sanngjarnt eða sjálfsagt sje að hafa það þar og undanþiggja þessar tekjur skatti. Hins vegar er ekki líklegt, að till. um að fella þetta ákvæði niður fái góðan byr, ef fjhn. vill ekki fallast á það, en um það er ekkert hægt að vita, fyr en hún hefir látið eitthvað uppi um það.

Jeg lofaði í upphafi að fara ekki langt út í þetta mál, enda ástæðulítið að gera það, þar sem nefndin hefir ekki haft meira við frv. að athuga en sjá má á brtt. hennar.

Jeg get þó ekki látið vera að láta í ljós þá skoðun mína, að enda þótt miklum örðugleikum verði bundið um góðar framkvæmdir þessara laga í byrjun, þá verði þó óumflýjanlegt að koma einhverju slíku skattakerfi á, fyr en síðar. Og þó að illa hafi gengið að ná tekjuskatti síðustu árin, þá held jeg, að þær framkvæmdir hafi verið nauðsynlegur undanfari þessa skattafrumvarps.

Þess vegna geri jeg ráð fyrir því, að allir muni fallast á þetta skattafyrirkomulag og venjast því vel, enda get jeg tekið undir það, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að slíkt kerfi sem þetta er það allra sanngjarnasta, sem hægt er að nota í skattaálagningu. Svo er líka nauðsynlegt að fá reynslu um það, hvernig menn taka nýjum sköttum. Mjer er kunnugt um það sjálfum, að allir hafa sætt sig vel við lausafjárskattinn og ábúðarskattinn; venjan hefir þar sem annarsstaðar numið í burt óþægindin, og þegar nýtt er upp tekið kunna menn kannske ekki altaf við það í fyrstu, þótt miklu sanngjarnara sje. En þetta breytist með árunum og „tímans straumur“ sigrar hjer sem annarsstaðar.

Jeg er á sama máli og hæstv. fjrh. (M. G.), að mjer finst fulllangt gengið hjá nefndinni með brtt. við 13. gr. Þó held jeg, að jeg sje fastráðinn í því að greiða atkv. með frv. eins og það nú er, en þætti vitanlega betra, ef það tæki þeim breytingum, sem jeg hefi minst á.