07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þorleifur Jónsson:

Jeg gerði við 2. umr. smáathugasemd um einstöku ákvæði frv. Í framhaldi af því hefi jeg leyft mjer, ásamt 2 öðrum hv. þm., að koma fram með nokkrar brtt.

Brtt. þessar raska ekki neitt grundvelli frv., en eru, frá okkar sjónarmiði, smálaganir á einstökum ákvæðum frv. Skal jeg þá leyfa mjer að snúa mjer að brtt.

1. brtt. fer fram á það, að atvinnurekendur megi telja með rekstrarkostnaði þá vinnu, sem skyldulið atvinnurekanda leggur fram. Okkur virðist, að eftir frv. verði þeir harðara úti, sem njóta aðstoðar barna sinna við rekstur atvinnunnar, heldur en þeir, sem hafa vandalaust fólk.

En það er nú alkunna, að á síðari tímum, síðan aðstreymi fólks í kaupstaðina og útstreymi úr sveitum fór að aukast svo mjög, þá eru mörg sveitaheimili, margir bændur til sveita, sem verða að bjargast við börn sín, eftir því sem þau komast á legg. Þau eru víða eina stoð og stytta heimilanna, og svo ætlast frv. til þess, að þessi vinnukraftur megi ekki teljast til rekstrarkostnaðar við búið. Það er eins og lögin segðu sem svo: Ja, þú hefir nú börn þín. Það getur nú ekki talist til útgjalda sú vinna, sem þau inna af höndum. Með öðrum orðum, það getur litið út fyrir, að þetta sje nokkurskonar refsing á heimilið fyrir það, að börnin tolla eitthvað heima eftir ferminguna. — En okkur virðist, að löggjöfin ætti fremur að hlynna að því, að unglingarnir tyldu í sveitunum, heldur en hitt, að gera lagaákvæði, um það, að þau heimili verði harðar úti en önnur.

Jeg hefi verið að aðgæta aths. í stjórnarfrv. um þessa grein, en þar er ekki minst á þennan mismun, sem hjer kemur fram, um vinnu skyldra og vandalausra. í aths. stendur, þar sem rætt er um frádrátt eða það að finna mestar tekjur, aðeins þetta:

„Er það auðvitað fyrst og fremst eins og nú allur reksturskostnaður, eða þau útgjöld, sem gengið hafa til að afla teknanna.“

En í gömlu tekjuskattslögunum frá 1877 man jeg ekki eftir neinu ákvæði líku þessu.

Býst jeg við, að þetta hafi ekki verið athugað nógu vel og hafi slæðst inn af ógáti. Vænti því, að það mæti engum mótmælum að kippa þessu burt.

Þá er 2. brtt. við 13. gr., sem ekki er mikil efnisbreyting, og þarf jeg ekki mikið að tala fyrir henni, enda vonast jeg til ef á hana verður ráðist, þá taki háttv. meðflutningsmenn mínir til andsvara.

Þá er 3. brtt. við 29. gr. frv. í 5. lið þessarar greinar er svo ákveðið, að þóknunin til skattanefnda greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr sveitarsjóði. Okkur finst, að þessi störf skattanefnda komi ekki sveitarsjóðum neitt við, og viljum því, að ríkið borgi allan kostnaðinn. Má margt færa því til sanns. Og er þetta á móti þeirri reglu, sem gilt hefir um skyld mál.

Starf skattanefnda nú er að nokkru leyti sambærilegt við starf hreppstjóra áður, eða fram að þessu. Hreppstjórarnir hafa á hendi, meðal annars, að safna og gera úr garði tíundarskýrslur, sem er undirbúningur undir skattaálögur. En það hefir aldrei verið farið fram á það, að þeim yrði að neinu leyti borgað úr sveitarsjóðum. Ríkið hefir altaf borgað þeim, og enginn annar. Stjórnin talar nokkuð um þetta í aths. við 29. gr. og segir, að sjálfsagt sje, að sveitarsjóðir greiði eitthvað af þóknuninni til skattanefnda, einkum ef fyrirkomulagi sveitaskatta yrði breytt þannig, að sömu nefndir jöfnuðu niður sveitarskatti og ríkisskatti. En það er nú ekki líkt því, að neinn rekspölur sje kominn á það mál ennþá. Enn sem komið er eru það hreppsnefndirnar, sem jafna niður sveitargjöldunum eftir efnum og ástæðum.

Enn segir stjórnin, að framtalið, sem fæst við niðurjöfnun ríkisskattsins, geti orðið til mikillar leiðbeiningar fyrir hreppsnefndir við niðurjöfnun aukaútsvars og geti sparað þeim töluvert verk. — Jeg er nú ekki á því, að neitt nýtt ljós renni upp fyrir hreppsnefndum við þetta.

Áður hafa þær haft tíundir að fara eftir, og svo annað, sem þær hvort eð er af kunnugleik hafa á vitundinni, um efni og ástæður manna. Jeg held því, að þessi niðurjöfnun skattanefnda verði í færri tilfellum neitt betri mælisnúra.

Alt öðru máli væri að gegna, ef eitthvað af tekjuskattinum ætti að renna til sveitarsjóðanna; þá væri sjálfsagt að þóknunin til skattanefnda yrði að einhverju leyti greidd úr sveitarsjóði.

Okkur datt að vísu í hug að koma með brtt. um, að eitthvað lítið eitt af tekjuskattinum gengi í sveitarsjóð, en þorðum ekki á neinn hátt að rýra tekjurnar með því, í þessu harðindaári fyrir landssjóðinn.

Jeg held jeg þurfi þá ekki að ræða meira um brtt. þessar. Jeg held, að sanngirni sje með því, að sá sjóður, sem á að fá tekjurnar, greiði og allan kostnað við þann undirbúning, sem til þess þarf, að tekjur náist.

Þá kem jeg að 4. brtt. okkar. í 43. gr. frv. er svo ákveðið, að hver heimilisráðandi inni af hendi skattinn fyrir þá, sem heimilisfastir eru hjá honum. Við teljum ekki rjett að leggja slíka skyldu á heimilisráðanda. Okkur finst rjett, að það opinbera hafi aðgang að gjaldanda sjálfum, eins og verið hefir með lausafjárskatt og aðra slíka skatta. Við skulum gera ráð fyrir, að skattgreiðandi tregðist við að borga heimilisráðanda; hefir hann þá nokkurn rjett til að heimta lögtak á því? Jeg býst ekki við því. Getur vel farið svo, að heimilisráðandi fái enga endurgreiðslu.

5. brtt. okkar er um það að fella burtu 52. gr. Okkur þykir næsta athugavert, að ekki þurfi annað en ákvæði í fjárlögum til að hækka þennan skatt, þótt ekki sje nema ár og ár í bili. Jeg hefi ekki nokkra trú á því, að það út af fyrir sig myndi stuðla að „hollu íhaldi í fjármálum“, eins og stjórnin segir. Það gæti jafnvel eins vel leitt til hins, að stjórn og þing færi enn ógætilegar í fjárveitingar og hugsuðu sem svo: gerir ekkert til, ekki þarf annað en hækka tekjuskattinn. Auk þess er það mjög vont fyrir gjaldendur að geta aldrei verið vissir um nema miklu meira verði kallað af þeim en lögin áskilja. Þeir geta aldrei um frjálst höfuð strokið. Vita aldrei hvað stjórn og þingi þóknast að plokka af þeim.

Jeg hefi þá gert dálitla grein fyrir brtt. okkar, og þar sem þær raska í raun og veru ekki neitt við aðalstefnu eða grundvelli frv., þá vænti jeg, að háttv. deild geti ljeð þeim fylgi sitt. Af þeim sökum þarf hæstv. stjórn eða háttv. nefnd heldur ekki að leggjast á móti þeim. Það eru aðeins lagfæringar, án þess að draga nokkuð verulega úr ákvæðum frv. um skatthæð. Jeg vona, að háttv. nefnd verði mjer sammála um, að brtt. sjeu heldur til bóta, og greiði þeim atkvæði sín.