07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Sigurðsson:

Jeg verð að gera nokkra grein fyrir brtt., sem jeg er einn flutningsmaður að, á þskj. 517.

Þegar útflutningsgjaldsfrv. var hjer til 2. umr. gat jeg þess, að jeg gæti ekki, vegna sannfæringar minnar, fylgt því lengra en til 3. umr. Þetta hefir ekki breytst, en jeg gat þess jafnframt, að jeg áliti ríkissjóði vera svo brýna þörf á tekjuauka, að það væri ábyrgðarhluti að fella niður tekjuaukafrv., án þess að setja annað í staðinn. Jeg gat þess ennfremur, að jeg mundi koma fram með till. til hækkunar á tekju- og eignarskattiuum, til þess að vega á móti þeim tekjum, er landssjóður misti, ef útflutningsgjaldið væri felt niður.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að samtals nemi tekju- og eignarskatturinn 1. milj. kr. Hæstv. fjrh. (M. G.) gerir ráð fyrir, að hann muni nema 700–800 þús. kr. Jeg áætla hann þá 750 þús. kr. Til þess að jafna mismuninn, ef útflutningsgjaldið fjelli, þá mun hæfilegt að setja tekju- og eignarskattinn 35% hærri, eins og brtt. mín fer fram á. Hjer er aðeins um heimild að ræða fyrir stjórnina fyrir árið 1922, en hún fellur úr gildi 31. des. það ár. Ef stjórnin notaði þessa heimild, mundu fást í landssjóð fullar 260 þús. kr. eftir minni áætlun.

Jeg þarf raunar ekki að endurtaka það, sem jeg sagði við 2. umr. um útflutningsgjaldið. En vil þó aðeins drepa á nokkur aðalatriði, til stuðnings brtt. á þskj. 517. Útflutningsgjald er óeðlilegt og ranglátt vegna þess, að það er aðeins lagt á framleiðendur, sem ekki eru nema einn sjötti hluti landsmanna. Það er vitanlegt, að þessi flokkur manna er undirstaðan undir þjóðarbúinu; á störfum þeirra hvílir efnalegt sjálfstæði og þrif þjóðfjelagsins, en nú er svo komið, að framleiðendur eiga mjög í vök að verjast, svo að nú væri þess meiri þörf, að hlaupið væri undir bagga með þeim heldur en íþyngja þeim með sjerstökum sköttum.

Viðvíkjandi þörf landssjóðs á tekjum, þá hefi jeg áður viðurkent hana fyllilega. Brtt. á þskj. 517 er tilraun til þess að fylla í skarðið, ef útflutningsgjaldið fjelli. Með henni koma þessi gjöld á alla þjóðina, með útflutningsgjaldinu aðeins á lítinn hluta hennar. Ef háttv. deild getur ekki fallist á hana, þá er hún vitanlega sjálfráð um það. En jeg vænti þess, að þeir, sem eru líkt skapi farnir og jeg, greiði brtt. minni atkvæði. Þeir, sem fella hana, koma vonandi með eitthvað annað í staðinn; jeg þykist hafa gert mína skyldu.

Tekju- og eignarskatturinn er að flestra áliti miklu rjettlátari skattur, því að hann kemur niður eftir efnum og ástæðum manna. Jeg býst við, að þeim mótmælum verði hreyft, að óheppilegt sje að byrja með honum svona háum. En tekjuskatturinn er ekkert nýmæli; við höfum haft almennan tekjuskatt síðan 1917, og þó að við höfum ekki haft almennan eignarskatt fyr, þá skiftir það ekki svo miklu máli. Það er þegar fengin reynsla um tekjuskatt, og almenningur er farinn að venjast honum.

Jeg ætla ekki að fjölyrða um þá mótbáru, að skatturinn náist ekki inn, því að það er í rauninni aðeins staðhæfing út í loftið, það því síður sem frv. hefir góð ákvæði, sem tryggja það, að skatturinn náist vel inn.

Hvað tekju- og eignarskatturinn verði hár, getur enginn sagt um með vissu, og þýðir ekkert að þrátta um það. Þessi brtt. mín er meir borin fram af skyldutilfinningu til þess að fullnægja þörf ríkissjóðs heldur en sem kappsmál mitt. Eins og jeg tók fram áðan, þá gat jeg ekki varið það fyrir samvisku minni að vera á móti útflutningsgjaldinu, án þess að koma með eitthvað í staðinn.