18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg hefi ekki eins mikla trú á tekjuskattsfyrirkomulaginu og hæstv. fjrh. (M. G.). Og ótrú mín stafar af reynslu, þeirri reynslu, hve erfitt hefir reynst að ná í skattinn, sjerstaklega af landbúnaði. Hann gerir ráð fyrir meiri tekjum af þessu frv. en gildandi lögum, og byggir það á betra framtali. Jeg sje nú ekki þá breytingu á skattanefndunum, að þeim sje betur treystandi en áður, og jeg verð að segja það, að framtalinu þori jeg ekki að byggja á. Jeg hefi verið í skattanefnd, og þar gáfu einir tveir menn upp tekjur sínar. En nefndin fann út reglu til að áætla tekjurnar og fá út skattinn, og tókst það svo vel, að yfirskattanefnd var mjög vel ánægð með það. Landsstjórnin var líka ánægð, og svo leit út, sem nefndin hefði fundið rjetta leið. En hitt er jeg viss um, að þeir tveir, sem upp gáfu, guldu of lágan skatt. Þetta bendir ekki á það, að bót sje að uppgjöf, ef skattanefndir rækja starf sitt trúlega.

Og eitt vil jeg taka fram. Það er ekki nóg að setja falleg lög. Það þarf líka að fylgja þeim fram og sjá um að þeim sje fram fylgt. Og mitt álit er það, að allar stjórnir hafi fylgt þessum lögum heldur slælega fram. Margar skattanefndir og hreppstjórar í broddi fylkingar hefðu átt að vera settir af fyrir löngu. Þótt það sje ekki mikil staða, þá er þó altaf svo, að mönnum þykir leiðara að vera settir af. Er það ærin afsetningarsök, þegar svo er, sem jeg get sannað, að hreppstjórar hafa gert sitt til að lækka skattana og gera menn skattfrjálsa með röngu. Og hefir þetta oft komið í ljós við samningu verðlagsskrár, en þar sjest greinilega, að eitthvað er bogið, þegar ær er t. d. metin á 25 kr. í einni sveit, en í næstu sveit með sömu landkostum á 50–60 kr. Og dæmi eru til þess, að ríkir bændur hafa verið gerðir skattfrjálsir. Stjórnin verður að framfylgja þessu röggsamlega. Það er hægt að heimta skatt, þar sem ekki er annað að gera en að reikna skattinn eftir gefnum stærðum, svo sem var um ábúðarskattinn, en hinu þarf að hafa hönd í bagga með, og leiðbeina þeim, sem um eiga að sjá, svo sem formönnum skattanefnda.