18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg vil aðeins taka það fram, að jeg sje ekki betur en búið sje að fara þannig að í skattamálunum, að það verði hreint og beint að samþ. þetta frv. Fyrir rúmum hálftíma var samþ. hjer í þessari háttv. deild frv. um fasteignaskattinn, sem hefir talsverða lækkun á tekjum ríkissjóðs í för með sjer, og sömuleiðis hefir lausafjárskatturinn verið feldur niður. Það gæti því varla álitist forsvaranlegt að fella þetta frv. líka.

Viðvíkjandi því, sem háttv. frsm. (S. F.) sagði, að skatturinn af háu tekjunum væri of lágur, en of hár af lágu tekjunum, þá skal jeg benda á það, að þetta verður vonandi ekki til lengdar. En þetta verður svo að vera í bili, því að flestir stærri gjaldendurnir eru nú horfnir, en einhversstaðar verður ríkissjóður að fá tekjurnar. Tel jeg líklegt, að ekki verði langt þangað til svo batnar í ári, að hægt verði að breyta þessu.

Annars býst jeg við, að flestir verði að játa, að erfitt sje að búa til skattastiga, sem allir sætti sig við. Og jeg skal taka það fram, að í þessu frv. er fjöldi af smærri atriðum, sem eru til stórbóta, og meðal annars þeirra vegna vil jeg hafa, að frv. gangi fram, og jeg verð að krefjast þess.

Þá vil jeg segja það til málsvarnar hv. fjhn. Nd., að hún hefir í ár haft mikið starf og vandasamt með höndum, og er því ekki furða, þótt nokkur dráttur hafi á orðið afgreiðslu sumra málanna. Mun það hafa vakað fyrir henni, er hún afgreiddi smærri málin á undan, að þau tæki styttri tíma, en gott að koma sem flestum málum frá.