07.04.1921
Efri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

1. mál, hlutafélög

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Um brtt. við 4. gr. er það að segja, að nefndin leggur ekki mikla áherslu á það, hvort minsta tala stofnenda verður ákveðin 3 eða 5. í dönsku hlutafjelagslögunum eru 3 stofnendur lágmarkið, en í sænsku lögunum 5. Yfirleitt virðast nú sænsku lögin fullkomnari. — Þá er um hluthæðina. Hvort sem 3 eru eða 5, þá er ekki brýn ástæða til, að allir leggi jafnt fram, heldur má ákveða lágmark hlutafjár, eins og nefndin leggur til að gert verði með brtt. 235,1. En vitanlega gæti komið til athugunar að taka til lágmark hlutar, og mun nefndin athuga það til 3. umr.

Ef þrír menn geta verið fjelag, þá stenst ekki vel ákvæðið um, að enginn megi fara með meira en einn fimta atkv. Með því væri þá girt fyrir, að atkvæði væru greidd fyrir meira en 3/5 hlutafjárins. Annars sje jeg enga ástæðu til að binda sig við töluna 3. Ef um holla hugmynd er að ræða, þá fer varla hjá því, að fá megi 5 menn í fjelag.

Háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) talaði um að 2. liður brtt. á þskj. 257, við 31. gr., mundi fara betur annarsstaðar en þar, sem bent er til. Þetta er alveg rjett athugað hjá háttv. þm. (B. K.). Nefndin ætlaðist einmitt til, að þessi orð kæmu inn í 2. málsgrein, á undan orðinu „Samþykki“. Jeg vona, að hæstv. forseti geti borið það svo upp og skoðað hitt sem prentvillu.