03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

63. mál, eignarnám á vatnsréttindum í Andakílsá

1642Flm. (Pjetur Þórðarson):

Þótt mál þetta sje ofureinfalt og nægt geti því til skýringar greinargerð sú, er fylgir, þá vil jeg samt leyfa mjer að skýra í stuttu máli frá tildrögum þess.

Sumarið 1919 hófu nokkrir menn í Mýrasýslu samtök til að láta athuga möguleika innan hjeraðs til vatnsvirkjunar með rafafli til almennrar notkunar, og fengu þeir þá um sumarið sjerfróðan mann í þessum efnum, til þess að gera athuganir og mælingar á ýmsum stöðum í þessu skyni.

Árangur af þessum athugunum varð sá, að fullkomin vissa varð fengin fyrir því, að Andakílsfossar, sem eru í Andakílsá, skamt frá botni Borgarfjarðar austanverðum, eru betur en nokkurt annað vatnsfall fallnir til þess að virkja þá til almennra raforkunota, hvort sem væri fyrir tiltölulega lítið eða alveg ótakmarkað svæði innan hjeraðs.

Að því búnu var fengin bráðabirgðakostnaðaráætlun um rafvirkjun og rafleiðslur báðum megin fjarðarins til kauptúnanna Borgarness og Akraness, miðuð við verðlag á efni og vinnu eins og það var 1919, og samkvæmt henni var rafvirkjun við fossana álitleg til hagsmuna, þótt ekki væri um annað meira að ræða en hina almennu heimilisnotkun til ljósa, suðu og upphitunar.

Í marsmánuði 1920, á aðalfundum sýslunefndanna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum, tóku nefndirnar mál þetta í sínar hendur og ályktuðu, hvor í sínu lagi, að halda undirbúningi áfram í sameiningu og láta gera fullnaðar mælingauppdrætti og kostnaðaráætlanir til virkjunar fossanna og raftauga um hjeruðin og kauptúnin Akranes og Borgarnes.

Sýslunefndirnar ályktuðu ennfremur að leita samninga um kaup á fossunum og rjettindum til landsnotkunar við þá og þar í grend.

Þetta var svo alt, eða að mestu leyti, framkvæmt síðastliðið ár, og nú er því lokið.

Í sambandi við annað erindi frá sýslunefndunum til hins háa Alþingis, er snertir þetta málefni og nú er lagt fram hjer á lestrarsalnum (merkt nr. 115), fylgjaskjöl þau, er sýna mælingar, uppdrætti og áætlanir þær, er jeg nefndi.

En eins og getið er um í greinargerð frv. þessa, er eigandi fossanna og rjettinda til landsnota við ána Englendingur, búsettur í Lundúnum, og hefir hann vitanlega engan umboðsmann hjer á landi. Var því kaupsamnings leitað fyrir milligöngu hr. Björns Sigurðssonar, fyrv. erindreka Íslands, og reyndist ómögulegt að ná samningum, nema þá með afarkostum, sem voru hrein og bein frágangssök.

Á sameiginlegum fundi sýslunefnda þeirra, er hjer eiga hlut að máli, 1. febrúar þ. á., var meðal annars gerð sú ályktun, að fela okkur flm. að fá hjá hinu háa Alþingi sjerstaka lagaheimild til þess að taka eignarnámi eignir þær og rjettindi, er frv. nánar tiltekur.

Loks skal jeg geta þess, þótt sýslunefndum þeim, sem hjer eiga hlut að máli, sje það fullkomlega ljóst, að fyrirtæki það, sem eignarnámsheimild þessi er aðeins lítill undirbúningsþáttur í, muni geta átt langa tíð fyrir höndum til þess að komast í framkvæmd, þá þykir við eiga að lúka þessu undirbúningsatriði nú þegar.

Mjer virðist ekki ástæða til að vísa frv. þessu til nefndar, en vona að hv. deild lofi því fram að ganga.