18.02.1921
Neðri deild: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

31. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (M. G.):

Hv. deildarmenn hafa þegar fengið landsreikningana fyrir árin 1918 og 1919 ásamt athugasemdurn yfirskoðunarmanna, svörum stjórnarinnar og tillögum yfirskoðunarmanna til úrskurðar. Á þessum gögnum öllum er frv. það bygt, sem hjer liggur fyrir. Jeg held að jeg megi fullyrða, að enginn teljandi ágreiningur sje um aukafjárveitingar milli stjórnarinnar og yfirskoðunarmanna, svo að jeg vona, að sú nefnd, sem fær frv. þetta til meðferðar, komist ljett út af því, og að það geti orðið samþykt óbreytt.

Athugasemdirnar við landsreikningana bera það með sjer, að hið besta samkomulag hefir verið milli stjórnarinnar og yfirskoðunarmanna, og jeg held að jeg geti fullyrt, að það hafi aldrei verið eins gott, og athugasemdirnar eru miklu færri nú en venjulegast áður, og verð jeg að telja það vott um góðan frágang reikninganna. Til samanburðar get jeg getið þess, að aths. við reikninginn fyrir 1918 eru 43, og reikninginn 1919 42, en voru t. d. 1917 37, 1916 123, 1915 163 og 1914 258.

Þegar þessari umræðu er lokið, óska jeg að frv. verði vísað til fjárhagsnefndar.