23.04.1921
Efri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

101. mál, slysatrygging sjómanna

Frsm. (Karl. Einarsson):

Jeg get orðið mjög stuttorður og að mestu látið mjer nægja það, sem tekið er fram í nál. Þetta frv. er komið frá stjórn Slysatryggingasjóðsins, og hefir tekið tveim breytingum. Önnur er sú, að skaðabætur hafa verið hækkaðar um 14 hluta, eða úr 3000 kr. í 4000 kr., til þeirra, sem fyrir slysum hafa orðið eða örkumlast í þjónustu útgerðarinnar. Og hin er, að skaðabætur skuli jafnt greiddar, hvort slasaður var trygður eða ekki, ef hann var tryggingarskyldur. Báðar þessar breytingar hafa aukin útgjöld í för með sjer, að vísu í síðara tilfellinu aðeins ef sjerstaklega stendur á, en getur þó komið fyrir, þegar útgerðarmaður er gjaldþrota eða getur ekki endurgoldið alla upphæðina.

Það vakti fyrir nefndinni, sem fjallaði um þetta mál í Nd., að skeytingarleysi formannsins eða útgerðarmanns ætti ekki að koma niður á fátækum og bágstöddum munaðarleysingjum, og hún hefir ekki fundið aðra leið heppilegri en þessa. Nú verður reynslan að skera úr því, hversu gefst, en komið getur það fyrir, að hækka verði iðgjaldið, vegna þess skaða, sem sjóðurinn kann að verða fyrir af þessum sökum.