09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

72. mál, vátrygging sveitabæja

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður, því að frv. var getið rækilega við 1. umr., og nefndin hefir ekki gert á því breytingar, svo teljandi sje. Jeg vil taka það fram, að nefndin hefir leitað sjer upplýsinga hjá framkvæmdastjóra Brunabótafjelags Íslands, sem hefir umsjón með sjóðum sveitarfjelaganna, og hefir hann mætt á fundi nefndarinnar og tjáð sig fylgjandi því, að frv. næði fram að ganga. Jeg held, að með frv. sje sæmilega sjeð bæði fyrir vátryggjendum og sveitarsjóðunum, svo að í því efni sje ekkert að óttast. Jeg hefi áður drepið á aðalatriði þessa máls, og þarf því ekki að endurtaka það, og það því síður, sem nál. er komið út fyrir þó nokkrum tíma og háttv. þm. hefir gefist kostur á að kynnast því.

En þá vil jeg snúa mjer að þeim brtt., sem ekki er getið í nál. Áður var það svo, að brunatrygging náði til skemda, sem metnar voru á 20 kr. og þar yfir, en þetta lágmark hefir verið hækkað upp í 50 kr., og er sú breyting svo sjálfsögð, að ekki þarf að skýra hana nánar. Eins er um þá breytingu, að virðingarmenn eiga að fá 2.50 kr. fyrir hvern bæ, sem þeir meta, í stað 1 kr. áður. Vitanlega er 2.50 kr. engan veginn fullnaðarborgun, en við sveitamennirnir vinnum svo margt í þágu þess opinbera fyrir lítið sem ekkert kaup, að jeg býst ekki við því, að um þessa fjárhæð verði kvartað. En hins vegar duldist nefndinni það ekki, að 1 kr. borgun var broslega lág í þessu sambandi, og þess vegna kaus hún að stilla þessu í hóf og hafa það 2.50 kr.

Þegar lögin um stofmm brunabótasjóða fyrir sveitarfjelög voru samþykt, var ákveðið, að landssjóður legði fram 10 þús. kr. sem stofnfje í hinn sameiginlega sjóð. Nú er gert ráð fyrir að færa hámark hverrar vátryggingarupphæðar upp um helming, og þótti nefndinni þá rjett, að tillag landssjóðs hækkaði að sama skapi. Iðgjöld eru lág nú, og aðeins 43 hreppar hafa myndað sameiginlegan brunasjóð, og eru í honum aðeins 47 þús. kr. Allir geta sjeð, að þetta er engin upphæð og hrekkur skamt, ef verulega bruna ber að höndum, og því er ekki hægt að sætta sig við minna en helmingshækkun.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að ræða málið frekar, en vænti þess, að það fái góðar undirtektir.