14.03.1921
Neðri deild: 22. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

34. mál, landsreikningar 1918 og 1919

Magnús Kristjánsson:

Það þýðir lítið að minnast frekar á þetta mál, þar sem hæstv. fjrh. (M. G.) hefir skýrt rækilega frá því. En þessi mismunur milli reikninganna er þannig tilkominn, að landsverslunin leit svo á, að kostnaðinn við sendingu erindreka vestur bæri ekki að færa henni til útgjalda, þar sem sú sending væri meira í þágu kaupmannastjettarinnar en hennar sjálfrar. En hinsvegar var auðvitað ekkert því til fyrirstöðu, að hæstv. stjórnarráð ákvæði að greiða slíkan kostnað af varasjóðnum. Sama er að segja um kostnaðinn við seðlakerfið. Það var ekki tekið upp vegna landsverslunarinnar, heldur gert þjóðinni í hag, vegna yfirvofandi skorts á nauðsynjavarningi. Þessvegna eru þetta bein gjöld ríkissjóðs, en ekki landsverslunarinnar.

En nú hefir orðið samkomulag um þetta. Hæstv. stjórn hefir nú ákveðið, að þessi kostnaður skuli tekinn af varasjóði landsverslunarinnar. Jeg hefi ekkert við það að athuga; þetta er auðvitað ekki annað en flutningur úr einum vasanum í annan á sömu flíkinni, en hitt er eðlilegt, að hver þessara stofnana vilji hafa sína reikninga út af fyrir sig og sem nákvæmasta.