03.05.1921
Efri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

105. mál, einkasala á áfengi

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg þarf ekki að flytja hjer langt erindi. Hv. nefnd hefir tekið vel í brtt. okkar háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) við 2. gr. Um fyrri liðinn vil jeg segja það eitt, að jeg leyfi mjer að taka hann aftur, því nefndin ber fram samskonar breytingu, aðeins víðtækari.

Það er ekki nema beint framhald af öðrum ákvæðum laga þessara, að sala suðuvökva og áfengis til iðnaðar fari einnig í gegnum hendur þessa áfengisstjóra. Og sömuleiðis, að ákveðið sje í reglugerð, hve mikið dýralæknar og lyfsalar skuli fá, og eftirlit um framkvæmd þeirrar reglugerðar sje einnig í höndum forstöðumanns áfengiskaupanna. Það sýnist ekkert eðlilegra en að þessi maður hafi á hendi sölu og eftirlit með öllum áfengisvökvum, sem til landsins flytjast.

Nefndin er mótfallin aðalbrtt. okkar háttv. þm. (B K.) á sama þskj. Það er ekki mikið, sem á milli ber, og ekki vert að gera það að kappsmáli. Nefndin vill algerlega undanskilja lyfin álagningu, en jeg álít, að úr því lyfjaeftirlit er sett á stofn, þá eigi lyfin að bera ofurlitla álagningu, eitthvað upp í kostnaðinn við þetta eftirlit. Við gerðum og ráð fyrir í okkar till., að á lyfjaáfengi skyldi lagt 30%, án tolls, en nefndin vill undanskilja þetta áfengi álagningu.

En úr þessu hvorutveggja skera atkvæði manna hjer í deildinni, hvernig þeir vilja, að með þetta sje farið, og mun jeg eigi orðlengja um það frekar.