03.05.1921
Efri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

105. mál, einkasala á áfengi

Sigurður Eggerz:

Jeg mintist á þetta frv. þegar það var til 1. unir. hjer, og jeg vil ekki láta það fara svo út úr deildinni, að jeg kveðji það eigi með nokkrum orðum, jafnvel þótt jeg viti, að forlög þess sjeu þegar ákveðin. Jeg býst við að taka upp sumt af því, sem jeg sagði þá, og það því fremur, sem hæstv. stjórn er nú viðstödd. Jeg hefi heyrt þrjár ástæður færðar fyrir frv. þessu. Fyrsta ástæðan er, að það sje bót fyrir bannlögin. Önnur ástæðan er, að nauðsynlegt sje að hafa eftirlit með lyfjasölunni. Þriðja ástæðan er fjárhagsástæða.

Jeg mintist á það við 1. umr., að í frv. þessu væri um enga vernd að ræða fyrir bannlögin. Eins og nú er má ekki flytja áfengi til landsins, nema gegnum umsjónarmann áfengiskaupa, eða með öðrum orðum. undir umsjón ríkisvaldsins. Sama er eftir þessu frv., að öðru leyti en því, að landið sjálft leggur út fje fyrir áfengið og kaupir það, og mun jeg síðar koma að því atriði. Að því er þá hlið snertir, sem að bannlögunum veit, þá hefir þó hinn nýi embættismaður í engu meira vald en umsjónarmaður áfengiskaupa nú. Eins og það er nú stjórnarráðið og landlæknir og þau stjórnarvöld, sem hafa áfengiseftirlitið, sem ákveða hve mikið áfengi umsjónarmaður áfengiskaupa skuli lát? af hendi, eins verður það, eftir að þetta nýja embætti er stofnað. Umsjónarmanni áfengis má líkja við krana, sem hið lögheimilaða áfengi rennur í gegn um; hinn nýi embættismaður verður heldur ekki annað en krani í þessu efni, en vitanlega miklu gyltari og fínni en sá gamli.

Nú kveður það við, að ef þetta frv. verði samþykt, þá megi styrkja bannið með hinum og þessum reglugerðum, en alveg eins má gera það undir núgildandi lögum.

Annars, að því er bannlögin snertir, þá er það ekki aðalatriðið að stofna margbrotna og mikla bannlöggjöf. Aðalatriðið er að skapa örugt almenningsálit í kringum bannlögin, en það hafa bannmennirnir ekki ennþá haft kjark í sjer til að gera. Þar hafa bannfjendurnir verið harðari í að skapa almenningi álit gegn lögunum.

Þá skal jeg minnast á næstu ástæðu, eftirlitið með lyfjabúðunum. Jeg er sannfærður um, að þetta eftirlit á að vera áfram undir þeim, sem hefir landlæknisembætti á hendi. Sá maður, sem er vaxinn þessari stöðu, er áreiðanlega einnig vaxinn því að hafa þetta eftirlit með höndum. Vjer höfum ekki ráð á því að skifta landlæknisembættinu nú, og síst þegar þessi nýi embættismaður á að vera, eftir því, sem sagt er, langtum hálaunaðri en landlæknirinn.

Mjer er sem jeg sjái framan í háttv. sparnaðarmenn hjer á þingi, er þeir sjá landlæknirinn þeysa yfir landið með fjölda hesta til reiðar, þegar hann er að líta eftir læknunum. Og svo kemur þessi nýi angi af landlæknisembættinu á eftir með ennþá fleiri hesta, auðvitað alt upp á landssjóðs kostnað. Nei, það verða að vera ríkar ástæður á þessum tímum til þess að stofna embætti, sem er langtum hálaunaðra en nokkurt annað embætti á landinu. Það þarf meira en þetta skálkaskjól: lyfjaeftirlitið. Og hjer í háttv. deild álítur jafnvel einn af læknunum, að þetta lyfjaeftirlit sje alveg ónauðsynlegt á annan hátt en verið hefir, sbr. ummæli háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.).

Þá kem jeg að þriðju ástæðunni, tekjuaukanum. Það er nú í fyrsta lagi, ef nauðsyn bæri til þess að afla tekna af þessum stofni, meiri en nú á sjer stað, þá mætti gera það með auknum tollum. Auðsýnilega væri það óbrotnari leið heldur en að setja upp stórt skrifstofubákn og hafa söluna á hendi, enda sýnilegt, að af því bákni verður enginn tekjuauki. Og það er ekki meiningin, að hinn nýi brennivínskaupmaður eigi að reyna að auka vínsöluna, þvert á móti er nú öflug hreyfing í þá átt að draga úr vínsölunni, sem er landinu til stórminkunar. Ef nú þessi alda magnast, ef áfengisinnflutningurinn verður aðeins bundinn við nauðsynleg lyf og iðnað, þá verður hann mjög lítill, því iðnaðurinn þarf mjög lítið að halda á áfengi; en jafnframt verða þá mjög litlar tekjur af honum. En skrifstofubáknið dagar þá uppi í vínþurru landinu, sem minnismerki yfir hagsýni þeirra manna, sem eru að ýta þessu skrifstofubákni á stað.

Jeg býst við, að jeg tali fyrir daufum eyrum hjer,. því að frv. mun vera trygður útgangur úr deildinni, en þjóðin má gjarnan fylgjast með því, hvað hjer á að gera í dag, og ef til vill mættu þessi fáu orð verða til þess að vekja einhvern í hv. Nd. af dvalanum.