14.04.1921
Neðri deild: 43. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg þarf eigi að bæta miklu við það, sem jeg hefi áður sagt um málið hjer í háttv. deild og álit okkar háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), sem hv. deild gefst kostur á að sjá.

Aðalástæða okkar móti frv. er sú, að þessi bankastofnun fullnægi ekki, nema þá að mjög litlu leyti, veðlánaþörfinni.

Háttv. frsm. meiri hl. (Jak. M.) miðaði allar ástæður sínar við það, að brjefin seldust. Hann hneykslaðist einnig á því, að við skyldum drepa á það í áliti okkar, að heppilegra mundi að taka lán erlendis til styrktar ræktunarsjóðnum heldur en verja miklu fje til stofnunar veðbanka. Fyrir okkar augum er það nú ekki sýnilegt, að bankavaxtabrjefin muni seljast að nokkrum mun, og þetta bæti því ekkert úr veðlánaþörfinni, og sje því eigi nema til þess að stofna ný embætti, að ráðist sje í þessa stofnun. Við viljum athuga fleiri leiðir, t. d. hvort eigi muni tiltækilegt að stofna veðlánadeild fyrir landbúnaðinn samkvæmt þál. 1919. Landbúnaðurinn þarf áreiðanlega fremur á veðlánum að halda en kaupstaðarbúar, til húsabygginga í kaupstöðum, þó það væri líka æskilegt. Og okkur sýnist það skylda ríkissjóðs að styrkja jarðrækt landsins, því að á henni veltur mikið um framtíð þjóðarinnar og alla afkomu.

Háttv. frsm. (Jak. M.) sagði, að við hefðum kveðið upp dauðadóm yfir landbúnaðinum með því að telja hann ekki færan um að borga háa vexti. Virðist svo, sem háttv. frsm. (Jak. M.) gangi út frá því, að jarðræktin sje afararðsöm. Má vel vera, að svo sje oft og einatt, en hjer verður að gæta þess, að hjá okkur er hún á byrjunarstigi, og því mörg sporin stigin, sem lítinn arð gefa. Og hætt er við því, að þótt breytt yrði um búnaðarháttu, þá græddist samt eigi við það á fyrstu umbótaárunum, meðan menn eru að feta sig áfram í nýjum tilraunum.

Annars hefir því verið þannig varið, að á undanförnum 4–5 árum hefir ekkert verið unnið að jarðabótum, og ástæðan til þess er sú, að vinnan hefir verið of dýr. Hygg jeg, að margir hefðu varið fje til jarðræktar, ef hægt hefði verið að fá lán með lágum vöxtum og til langs tíma. Eins og öllum er kunnugt, hefir sú skoðun verið hjer ríkjandi síðan um aldamót, að minsta kosti, að það bæri að styrkja menn til jarðræktar, og sá háttvirtur þingmaður, sem mesta hefir haft forystuna í þessu máli, er þeirrar skoðunar, að þörfin sje nú engu óbrýnni, jafnvel ennþá meiri.

Ræktunarsjóðurinn er stofnaður með það eitt fyrir augum að styðja að jarðrækt hjer á landi. Eftir áliti okkar, minni hlutans, þá væri það hið mesta óráð að hverfa frá því ráði. Jafnskjótt og um hægist, vinnulaun og útlendur varningur lækkar, þá má gera ráð fyrir, að bændur fari að rækta í stærri stíl heldur en nokkurntíma áður.

Háttv. meiri hluti er sammála okkur um það, að óvíst sje um sölu bankavaxtabrjefa hins fyrirhugaða banka. En hann gerir ráð fyrir, að þau muni seljast talsvert. Aftur á móti álítum við, að salan muni verða sáralítil, svo að um verulegan veltufjárauka fyrir bankann af þeirri sölu geti ekki verið að tala.

Háttv. frsm. meiri hl. (Jak. M.) virtist halda, að aðalástæða mín til þess að vera á móti stofnun þessa banka væri hræðsla við, að sparisjóðsinnlög myndu minka við það bankaútbú, sem jeg veiti forstöðu. Jeg fullyrði, að ekkert slíkt hefir vakað fyrir mjer. Þessi ummæli hans geta af ókunnugum skoðast móðgandi, en jeg mun þó ekki taka þau illa upp, því jeg veit, að háttv. þm. (Jak. M.) hefir ekki ætlað að móðga mig með þeim. (Jak. M.: Jeg meinti það ekki sem einkamál). Jeg skal benda á, að útbúið á Ísafirði hefir selt meira af bankavaxtabrjefum árlega heldur en önnur bankaútbú. En það er vegna þess, að við höfum gert talsvert til þess að selja þau. Sjerstaklega gerði þó fyrirrennari minn við útbúið mikið til þess að selja brjefin, auk þess sem hann varði árlega til þess þeim peningum, sem hann hafði lausa, sem ekki voru þó miklir. Af þessu er mjer sjerstaklega kunnugt um erfiðleikana á að selja bankavaxtabrjef.

Þá vill háttv. meiri hluti leggja mikið upp úr því, að sparisjóðsfje hafi aukist um margar miljónir á síðustu árum.

Það er að vísu satt, að sparisjóðsinnstæða landsmanna jókst um margar miljónir á árunum 1916–1919, en jafnvíst er hitt, að hún hefir stórminkað á síðasta ári. T. d. hefir innstæðan í Íslandsbanka minkað um alt að 5 miljónum.

Ennfremur ber að líta á það, að nú eru stofnaðar innlánsdeildir við flest kaupfjelög, og að lokum það, að útlánsfje hinna smærri sparisjóða hefir aldrei verið eins fast bundið og nú. Jeg þori að minsta kosti að fullyrða, að það eru sárafáir, sem geta fest fje sitt í bankavaxtabrjefum. Flestir, sem leggja fje í sparisjóð, gera það með það fyrir augum, að geta tekið fjeð aftur út, til þess að kaupa lífsnauðsynjar þegar harðnar í ári eða sverfur að þeim, af einhverjum ástæðum, t. d. vegna heilsuleysis eða annara slysa. Erlendis, sjerstaklega í Frakklandi, er öðru máli að gegna. Fjöldamargir, jafnvel hundruð þúsunda manna, lifa þar eingöngu á vöxtum af aflafje sínu. Það er eðlilegt, að slíkir menn kaupi bankavaxtabrjef og önnur slík verðbrjef, sem gefa þeim vissa ársvexti.

Jeg skal ekki, að svo komnu, fara neitt út í einstök atriði frv. Þessar aðalástæður, sem jeg hefi nefnt, teljum við fullgildar, til þess að fresta málinu. (Jak. M.: Fresta?). Já; við leggjum að vísu til á þskj. 282, að frv. nái ekki samþykki hv. deildar, en við bjuggumst við, að það kæmi fram rökstudd dagskrá um að fresta málinu, og henni erum við meðmæltir. Jeg tel engan efa á því, að það hlytust hreinustu vandræði af því að vinda bráðan bug að framkvæmdum á þessu stigi málsins.

Háttv. frsm. meiri hl. (Jak. M.) gat þess, að það skifti ekki miklu máli, hvort ríkissjóður fengi ekki meira en 2% af þeim sjóðum, sem lagðir verða bankanum sem stofnfje, en varasjóður bankans hitt, vegna þess, að ríkið ætti hvorttveggja. Svo mætti virðast í fljótu bragði, sem þetta væri rjett, en því fer nú samt fjarri.

Þeir vextir af sjóðunum, sem bankinn fær, ganga til þess að borga rekstrarkostnað þessarar stofnunar, sem etur tugi þúsunda árlega, en gerir ekkert gagn, eða jafnvel verra en það.

Það eru ýms ákvæði í þessu frv., sem sjálfsagt væri að breyta, en þar sem jeg er mótfallinn aðalstefnu þess, ber jeg ekki fram brtt.

Annars sjá allir skynbærir menn, að frv. er sniðið algerlega eftir erlendu fyrirkomulagi, en ekkert tillit tekið til staðhátta hjer á landi.