14.04.1921
Neðri deild: 43. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Fjármálaráðherra (M. G.):

Það sannast á háttv. 1. þm. Árn. (E. E.), að hverjum þykir sinn fugl fagur. Hann hefir nú haldið langa ræðu um brtt. sína, en um hana verð jeg að segja, að hún er jafnfráleit að efni og orðfæri, eins og sjest best á því, að háttv. þm. (E. E.) hugsar sjer nokkurnveginn jafna möguleika fyrir því, að bankinn hafi ótakmarkað fje og takmarkað.

Jeg held nú, að fjeð verði altaf takmarkað, svo að ekki verði hægt að sinna öllum lánbeiðnum. Hinu held jeg að ekki þurfi að gera ráð fyrir, að fjeð verði ótakmarkað; en þetta sýnir, að háttv. þingmaður hefir lagst djúpt í málinu.

Þetta er nú aðeins formsatriði og skiftir ekki miklu máli, en hitt er aðalatriði, að í brtt. er aðeins talað um lán til jarðræktar, en það er alls ekki nóg; það þarf að standa „lán til landbúnaðar“ yfirleitt, en það geta verið, auk jarðræktarlána, lán til jarðakaupa, húsabóta, verkfærakaupa og margs annars. Eins og till. liggur fyrir, er hún því nær einskis virði, og því algerlega ástæðulaust að samþykkja hana, enda er hún ákaflega óákveðin og sýnilega fram komin aðeins til málamynda.

Mjer þykir leiðinlegt að heyra, hvað háttv. flm. till. (E. E.) hefir lítið traust á landbúnaðinum, úr því hann telur lítt mögulegt að halda uppi sjerstakri lánsstofnun hans vegna. Þar er þó meira trausts að leita hjá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), enda vil jeg mótmæla þeim orðum háttv. 1. þm. Árn. (E. E.), að það hlyti að veikla hverja bankastofnun, að byggja á landbúnaðinum.

Brtt. fullnægir alls ekki því, sem jeg óskaði við 1. umr., og vildi jeg því óska, að háttv. flm. tækju till. aftur og löguðu hana undir 3. umr. Þá skal jeg fylgja henni, en eins og hún liggur fyrir, get jeg það ekki.

En úr því jeg stóð upp, þykir mjer rjett að gera nokkrar athugasemdir við frv., og verða þá margar þeirra fyrirspurnir.

Vextir þeir, sem ríkissjóður fær af framlögum sínum, virðist mjer altof lágir, 2% 10 fyrstu árin. Ef stofnfjeð eru 3 miljónir kr., munar þetta sem næst 60 þús. krónum á ári, eða 600 þús. kr. í 10 ár, en þetta verður með vaxtavöxtum um 1 miljón kr. Þetta þykir mjer altof hátt. Mjer finst bankinn vel geta goldið 4% frá byrjun, og nægilega mikið gert með því að láta hann fá 3 miljónir kr. í tryggingarfje. Mjer finst líka, að binda ætti trygginguna við ákveðna upphæð, en ekki láta alt, sem kemur inn fyrir seldar þjóð- og kirkjujarðir, renna í bankann, jafnóðum og inn kemur.

Orðið „Ísland“ í 6. gr. virðist mega falla burtu á 2 stöðum, því vitaskuld skipum við aðeins okkar ráðherrum og stjórnarráði. Jeg skil ekki heldur, hvers vegna vaxtabrjef bankans eiga að skrásetjast í stjórnarráðinu; jeg hjelt að það væri nóg, að bankinu gerði það.

Upphaf 9. gr. kann jeg ekki við, og þyrfti að breyta því, svo að meiningin kæmi skýrt fram. Þar stendur: „Bankastjórnin semur og ráðherra staðfestir“. Líklega átt við, að bankastjórnartillögurnar sjeu staðfestar af ráðherranum. Annars best að láta ráðherrann koma sem allra minst við samning reglugerðarinnar.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) mintist á ákvæði 16. gr., sem jeg hafði athugað og mjer virðast ákaflega hörð og gera sveitar- og sýslufjelög mjög háð bankanum, og virðist mjer varla þörf á slíku, enda þekki jeg ekki fordæmi fyrir slíku í löggjöf vorri. Það hneykslar mig, að skylt sje að jafna aukagjaldi þessu niður. Sje ekki, að það þurfi að vera aukagjald, ef hægt er að jafna því niður með venjulegum tekjum sveitarfjelagsins. Það stendur auðvitað „ef“, en eftir núgildandi lögum á að jafna niður því, sem þarf, eftir efnum og ástæðum, svo að þetta er óþarft.

Um 19. gr. verð jeg að segja það, að hún hlýtur að byggjast á öðru fyrirkomulagi en nú er og enn er ekki fram komið. Hún þarfnast því verulegrar athugunar, því jeg skil ekki vel hugsunina í því, að ríkissjóður, sem er eigandi bankans, eigi að taka ábyrgð á brjefum, er bankinn kaupir, ekki síst, þar sem brjef þessi eiga áður að vera trygð með nægilegu veði. En auðvitað getur verið, að síðar komi lög um þetta; en sem stendur eru engin slík lög til.

Í 22. gr. 3. málsgr. er prentvilla, sem þarf að leiðrjetta, og auk þess vantar ákvæði um, hver skal tilkynna eigendaskifti, seljandi eða kaupandi eða báðir. Þetta er því nauðsynlegra, sem sektir liggja við, ef tilkynning er vanrækt.

Í fyrirsögn IV. kafla sýnist mjer eiga að standa „bankans“,. en ekki „banka“.

Viðvíkjandi ákvæðum 41. gr., þá get jeg ekki sjeð neina nauðsyn á því að launa bankastjórum Landsbankans sjerstaklega fyrir það að vera meðstjórnendur þessa fyrirhugaða banka. Þeir losna þá við veðdeildarstörfin í Landsbankanum, og þótt þeir taki einhvern þátt í stjórn nýja bankans, þá ættu þau störf síst að verða meiri en þeir hafa áður haft, sjerstaklega þar sem gert er ráð fyrir, að auk þeirra verði einn aðalbankastjóri fyrir bankann. Annars er það mikið álitamál, hvort þurfi 4 bankastjóra. Jeg álít nóg, að þeir sjeu 3, nema þá að að því ráði yrði horfið að hafa bankana ekki saman, því að ekki er hægt að neita því, að nokkur keppni muni geta átt sjer stað milli þeirra innbyrðis, eins og líka bent hefir verið á.

Mjer þætti vænt um, ef nefndin gæti gengið inn á eitthvað af þessu, sem jeg nú hefi tekið fram. En mest finst mjer þó um það vert, að það komi skýrt fram, að landbúnaðurinn hafi forgangsrjett að lánunum. Háttv. frsm. (Jak. M.) vill fá frv. fram óbreytt, af því að hann er þingmaður Reykvíkinga, og sjer að það er hagur fyrir þá. Það er að vísu nokkur bót að brtt. hv. 1. þm. Árn. (E. E.), en hún er ekki nægileg til varnar yfirgangi kaupstaðanna.

Og ef ekki verða hjer sett nein tryggingarákvæði, þá er jeg hræddur um, að vel geti komið fyrir, að hússkrokkar í kaupstöðum útrými lánum til sveitanna, líkt og orðið hefir hjer í veðdeildinni. Og kann jeg af því margar sorglegar sögur, sem styðjast við eigin reynslu mína.