16.04.1921
Neðri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skal vera stuttorður, enda fátt komið fram, sem hnekt hafi staðhæfingum okkar minni hl. nefndarmanna.

Hv. framsögumaður meiri hl. (Jak. M.) segir, að við verðum að sanna, að erfitt verði að selja bankavaxtabrjefin. Nú vil jeg segja, að sönnunarskyldan í þessu máli hvíli á háttv. meiri hl., en jeg veit, að þeir hvorki geta nje gera tilraun til að sanna, að brjefin seljist; þvert á móti hefir háttv. frsm. (Jak. M.) játað erfiðleikana á því. Það er altaf erfitt að sanna það, sem ekki er komið fram. En við bæði getum og höfum bent á sterkar líkur fyrir því, að svo muni verða, — líkur, sem ekki verða hraktar, nema með reynslunni sjálfri.

Nú hafa t. d. verið til sölu skuldabrjef, ágætlega trygð af ríkinu sjálfu, og býst jeg við að minsta kosti sje háttv. þm. Ak. (M. K.) kunnugt um, að af þeim hefir selst sáralítið. Þessi vel trygðu brjef, sem seld voru undir „pari“, gefa sterkar líkur fyrir því, að veðbrjef bankans muni að minsta kosti ekki seljast betur, nema þá að vextirnir verði afarháir, en slíkt tel jeg ekki heppilegt, enda beinlínis bannað með lögum að taka meira en 6% ársvexti af lánum gegn 1. veðrjetti í fasteignum. Og ef að því ráði verður horfið að hækka mikið vextina, þá held jeg, að ver sje farið en heima setið um stofnun bankans.

Háttv. frsm. (Jak. M.) sagði, að það væri óheppilegt, að veðdeildin stæði í sambandi við Landsbankann. Jeg get gengið inn á það, að þetta sje óheppilegt fyrir bankann, en það er aftur heppilegt fyrir veðdeildina. Bankinn sjálfur hefir hlaupið undir bagga með veðdeildinni og keypt vaxtabrjef hennar, af því þau ekki hafa selst. Þetta hefði ekki orðið, ef veðdeildin hefði ekki staðið í sambandi við bankann, en einmitt þetta samband hefir til þess orðið, að veðdeildin hefir getað veitt góð og ódýr lán.

Jeg finn ekki ástæðu til þess að fara út í einstakar greinar frv., af því að við minni hl. peningamálanefndar erum algerlega á móti því, að frv. verði samþ., jafnvel með þeim breytingum, sem hjer hafa fram komið.

Háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) gat þess, að það þyrfti að vekja trú manna á bankavaxtabrjefunum og kenna mönnum að kaupa þau. Já, það þarf að vekja trúna, en það þarf jafnframt að efla möguleikana til að kaupa. Því þeir eru sáralitlir fyrir hendi, nú sem stendur. Jeg held að trúin ein nægi þar ekki, þótt sterk sje hjá sumum.

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) sagði, að sjer væri sjerstaklega sárt um afstöðu mína til þessa máls. Jeg veit ekki almennilega, hvað hv. þm. (Gunn. S.) á við með þessu. Mínir hagsmunir eru samir, hvort þetta frv. verður samþ. eða ekki. Jeg á að vísu hús á Ísafirði, sem jeg þyrfti að fá lán út á. En jeg er á móti frv. af því jeg tel það gagnslaust nú.

Þessi sami háttv. þm. (Gunn. S.) sagði, að bankarnir hefðu legið á ríkisskuldabrjefunum og ekkert reynt til að selja þau. Þetta er algerlega rangt með farið. Jeg veit til þess, að bankarnir hafa talsvert mikið reynt til að selja þessi brjef, en ekki tekist það. (Gunn. S.: Það hefi jeg ekki orðið var við). Allir vita, að þessi brjef eru til sölu, þótt ekki sjeu þau beinlínis auglýst.

Ekki legg jeg heldur mikið upp úr þeim ummælum þessa háttv. þm. (Gunn. S.), að fá þyrfti sjerstakan mann, til þess að kenna mönnum að kaupa brjefin. Jeg er hræddur um, að sú kensla verði árangurslítil, og muni tæplega borga sig, því líklega þarf að greiða þessum manni einhverja þóknun fyrir kensluna. Jeg held, að sumir menn hjer í Reykjavík hafi kent fáráðum mönnum fullmikið í verðbrjefakaupum.

Hæstv. atvrh. (P. J.) gat um það, að meiri hluti veðdeildarlánanna mundi hafa verið veittur kaupstöðunum til húsabygginga. Út af þessum ummælum hefi jeg átt tal við fyrverandi bankastjóra Landsbankans. Hann sagði þvert á móti, að sveitalánin hefðu verið látin sitja fyrir kaupstaðalánunum, og sveitunum aldrei neitað um lán, ef fje var fyrir hendi.

Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) mintist á gleði bænda úti um land, er þeir hefðu frjett um þessa fyrirhuguðu bankastofnun. En jeg held, að bændur sjeu naumast svo lítt hugsandi yfirleitt, að þeir gleðjist yfir máli, sem þeir ekki þekkja til, annað en fyrirsögn frv., og vita ekki, hvort er til bóta. Ef þeir þektu efni þessa frv., er jeg viss um, að gleði þeirra myndi fljótt snúast í gremju.

Margir háttv. þm. líta svo á, að þetta frv. sje mjög vel bygt. En það geta þeir einir sagt, sem hafa blinda, óbilandi trú á erlendu fyrirkomulagi.

En jeg hefi ekki slíka trú; vil fremur líta á skoðun en trú í slíkum málum. Jeg hygg, að þetta frv. þurfi mikilla endurbóta við, ef það á að koma okkur að notum. Og jeg sje ekki, að það verði lagað svo á þessu þingi, að jeg geti greitt því atkvæði mitt.

Það, sem hefir valdið því, að við háttv. þm. Mýra (P. Þ.) snerumst á móti frv. þessu í nefndinni, var þetta:

1. Að okkur þótti þar ekki sjeð fyrir nægilegum og hagkvæmum lánum til bænda.

2. Að nýju bankavaxtabrjefin mundu ekki seljast.

3. Að bankastofnunin er afarkostnaðarsöm og kemur að sáralitlu gagni, en gerir stórt ógagn, t. d. með hækkuðum vöxtum á lánsfje þeirra sjóða, sem fyrir eru.

Brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) b:eta hjer lítið úr skák.

Jeg held, að ekki verði hægt að koma lánveitingum til landbúnaðarins í sæmilegt horf, nema með því að setja á stofn alveg sjerstaka lánsstofnun, sem þá væri utan við veðbankann. Jeg held, að það sje engin bót að fá lán með 6–7% vöxtum til jarðræktar. Slík lán mun mega alveg eins fá annarsstaðar, og síst með verri kjörum.