19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (2322)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg get alls ekki viðurkent, að brtt. mínar hafi komið hjer fram sem þruma úr heiðskíru lofti. Jeg var búinn að tilkynna það við 2. umr., að jeg hefði í hyggju að koma fram með brtt. um þessi atriði, og jeg samdi þessar till. strax eftir 2. umr. og sendi þær í prentsmiðjuna í gær. Svo þetta er alls ekki rjett hjá háttv. þm.

Annars hefi jeg litlu að svara háttv. frsm. (Jak. M.). Það er ekki satt, að hjer sje um það eitt að ræða, hvort peningamir skuli vera eyddir eða óeyddir, heldur um 100 þús. kr. óbeint framlag úr ríkissjóði til bankans, og þó að bankinn ef til vill eyði því ekki, hefir ríkissjóður ekki föng á að leggja slíkt fram, að minsta kosti ekki eins og útlitið er nú.

Það er hreinasta fjarstæða hjá þessum háttv. þm. (Jak. M.), að bankinn geti ekki starfað, ef brtt. mínar verða samþ., því vaxtamunurinn er samt mikill. Og þó bankinn ef til vill ekki fái 6% af öllum lánum, þá fær hann þó altaf meira en 4%.

Það, sem háttv. frsm. (Jak. M.) því tók fram í þessu efni, getur alls ekki komið fyrir.