19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Eiríkur Einarsson:

Jeg held, að allir þeir, sem eru þessu frv. hlyntir á annað borð, ættu að hugsa sig tvisvar um, áður en þeir samþykkja þessar brtt. frá hæstv. fjrh. (M. G.).

Þessar brtt. rýra möguleika bankans til þess að vaxa. Þær rýra tryggingu veðbrjefa hans og draga úr því fje, er annars mundi renna í varasjóð bankans.

Jeg held því, úr því sem komið er, að það ætti að skerast í odda um þetta mál, að nú komi það fram hjer við atkvæðagreiðsluna, hverjir hafi trú á að gera alvarlega tilraun til þess að koma veðbankanum á fót, og hverjir hafi á því enga trú. Mjer líka illa þessi millispor hæstv. fjrh. (M. G.), þar sem hann vill klípa af og draga úr, og mjer finst, að jeg geti ekki kallað slíkt full heilindi við málið.

Jeg held, að framkvæmd þessa máls byggist mest á því, að bankavaxtabrjefin verði seljanleg. En ef þau eiga að verða vel seljanleg, þá þurfa þau að vera vel trygð. En úr þeirri tryggingu vill nú einmitt hæstv. fjármálaráðherra draga með till. sínum. Þess vegna mun jeg greiða atkvæði móti þessum brtt., og vona, að margir fleiri háttv. deildarmenn geri það líka.

Sama máli er að gegna um brtt. um laun bankastjóranna. Með þeim greiði jeg ekki heldur atkvæði, því mjer finst, að einmitt það, sem gerir stofnunina sterklega, meðal annars sje það, að þeir menn, sem að henni starfa, vinni fyrir kaupi, og með því sje sýnt, að starf sje af þeim heimtað. Enda munu þeir þá og rækja störf sín betur, því að slík er nú einu sinni stefna tímans nú, að fæstir vilja vinna fyrir ekki neitt.

Annars skal jeg ekki fjölyrða frekar um þetta mál. En þó vil jeg taka það fram að lokum, að mjer finst það mjög varhugavert að vera að koma hjer fram með brtt. nú við 3. umr. málsins, og það um ekki óverulegri atriði en þetta.

Jeg vil minna menn á það, að höfundur þessa frv. hefir rannsakað þetta mál, bæði lengi og gaumgæfilega. Væri það því furðumikil fljótfærni, ef þingmenn færu nú að samþykkja breytingar á frv. í hugsunarleysi, og það breytingar, sem alveg eru nýkomnar fyrir augu háttv. þingmanna og þeir geta ekki enn verið búnir að átta sig á til neinnar hlítar.