04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

128. mál, útflutningsgjald

Jón Sigurðsson:

Jeg get ekki látið þetta mál fara svo gegn um háttv. deild, að hvorki sje hreyft neinum athugasemdum eða mótmælum. Það eru þó ekki einstök atriði frv., sem jeg vildi gera að umtalsefni að þessu sinni, heldur stefna frv. í heild sinni. Öll sanngjörn skattalöggjöf hlýtur að stefna að því, að skattarnir komi sem sanngjarnlegast niður á einstaklingum þjóðfjelagsins og á stjettum þess. En hjer er ekki því að heilsa. Hjer kemur gjaldið eingöngu niður á þeim, sem framleiða eitthvað. Allir verslunarmenn, allir iðnaðar og handverksmenn og aðrir þeir, sem taka laun sín í peningum, sleppa alveg. Um þetta væri ekki ástæða til að fást, ef þær stjettir, sem ekkert framleiða til útflutnings, greiddu einhvern skatt til ríkissjóðs, sem framleiðendur greiða ekki, og sem mætti færa til jafnaðar móti útflutningsgjaldinu, en því er ekki til að dreifa. Þetta verður því ekkert annað en sjerskattur á framleiðendum, umfram það, sem aðrir þurfa að bera. Nú er það öllum lýðum ljóst, í hverri kreppu einmitt framleiðslan er stödd, bæði til lands og sjávar. Það mun því ekki ofmælt, að miklu meiri ástæða væri til þess að ljetta undir með framleiðendum, svo sem unt væri, heldur en að hlaða á þá sjersköttum, sem hljóta að hjálpa til að halda þeim í kreppunni, lengur en ella mundi, og tefja fyrir viðreisn framleiðslunnar í landinu.

Hitt er annað mál, að þetta frv. er auðvitað fram komið af aðkallandi þörf ríkissjóðs, og þessar þarfir viðurkenni jeg fyllilega. En jeg vil reyna að fullnægja þeim á annan og sanngjarnari hátt. Vil jeg þar benda á þá leið, að hækka heldur tekju- og eignarskattinn; á þann hátt mætti fá jafnháa fjárupphæð og þá, sem áætlað er, að útflutningsgjaldið gefi af sjer, án þess að íþyngja sjerstaklega nokkurri einstakri stjett, og margfalt fleiri, sem bæru þessa skattabyrði, og kæmi því ljettara niður á hverjum einstökum, nánast eftir efnum og ástæðum. Þessu vildi jeg aðeins skjóta fram til athugunar fyrir háttv. fjárhagsnefnd, en sje að öðru leyti ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið að sinni; mun greiða því atkvæði til 3. umræðu, en heldur ekki lengra.