28.04.1921
Efri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg skal lofa háttv. deild því að vera stuttorður.

Fyrst verð jeg að segja það, að aðalmarkmið mitt með því að styðja að framgangi frv. þess, er hjer liggur fyrir, er það, að reyna að koma í veg fyrir það, að verslun og sjávarútvegur þessa lands fari í kaldakol, því að það mundi fyrirsjáanlega hafa gjaldþrot ríkisins í för með sjer. En jeg fæ ekki betur sjeð en að eitt af aðalskilyrðunum til þess að forða því, sje að veita Íslandsbanka þann stuðning af ríkisins hálfu, að hann neyðist ekki til, eða sjái sjer hag í því, að loka og hætta starfsemi sinni. Því að þá þyrfti mikið fje, ef losa ætti alla þá, er skulda honum, við skuldir sínar til hans, og hjálpa þeim auk þess til þess að halda atvinnuvegi sínum í horfi.

Jeg vona og treysti því, að ef frv. þetta verður bráðlega að lögum, þá muni það reynast Íslandsbanka sú stoð og sá styrkur, sem hann þarf með, til þess að geta tekið upp aftur fulla starfsemi sína, bæði við útlönd og innanlands, og sú mun vera skoðun flutningsmanna frumvarps þessa.

Hins vegar vil jeg nota tækifærið og það, hvernig komið er fyrir bankanum, til þess að færa yfirráðin yfir bankanum inn í landið, og haga þá stuðningnum svo, að hann sje skilyrði fyrir því. Því að sjálfsögðu eiga yfirráðin yfir öllum peningastofnunum hvers ríkis að vera innlend, og það var út úr neyð, og af því að þá var það álitið bráðnauðsynlegt, til þess að fá bráðnauðsynlegt fje inn í landið, að gengið var að því á sínum tíma að veita Íslandsbanka hlunnindi þau, er hann fekk, þótt yfirráð hans væru í höndum útlendinga. Þegar bankinn er að meiri hluta innlendur, þá er von til, að friður verði um hann, en það er nauðsynlegt. Þetta legg jeg mikla áherslu á, og þá ekki síður hitt, sem jeg gat um, að bankinn gæti haldið áfram. Dugir þá ekki að skera hjálpina svo við neglur sjer, að hluthafarnir kjósi fremur að láta bankann hætta starfsemi sinni en að taka við henni. — Þetta vona jeg, að öllum háttv. þdm. sje ljóst.