28.04.1921
Efri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (2454)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) leiddi þetta inn í umræðurnar, og jeg svaraði. Mjer finst skörin ætla að færast upp í bekkinn, þegar hann getur búist við, að stjórnin fari að svara fyrirspurn, er hann leggur fyrir hana. Samt sem áður, þótt mjer beri engin skylda til þess, ætla jeg að svara, því mjer er þetta ekkert hitamál.

Stjórnin hefir auðvitað rjett til þess að biðja um traustsyfirlýsingu, en jeg hefi altaf haldið því fram, að hún, og hennar fylgismenn, eigi rjett á að ákveða, hvort þetta skuli gert og hvenær. Mótstöðumenn hennar hafa aftur á móti engan rjett til þess; þeir geta aftur komið henni frá með samþykt vantrausts.

Það hefir að vísu komið fyrir í þingsögu vorri, að vantraustsyfirlýsing var borin upp aðeins í Nd., og var þar um leið lýst afstöðu hinnar deildarinnar, eða meiri hl. hennar.

Margt hefir óþekt komið fram af hálfu stjórnarandstæðinga hjer í ár, að jeg tali ekki um það kynlega fyrirbrigði, að bera upp tillögu um traust, sem flm. fella sjálfir, og sem flm. vantraustsins, þm. Dala. (B. J.) hafði þau orð um, að það væri þinghrekkur. Það hafði auðsjáanlega komið til orða, að þm. (B. J.) tæki að sjer flutning till., en svo djúpt gat hann þó ekki fallið sjálfur.