09.05.1921
Efri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (2485)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurður Eggerz:

Eins og jeg hefi áður sagt, þá legg jeg aðaláhersluna á hlutafjárkaup ríkisins í bankanum, til þess, að landið nái á þann hátt yfirráðum yfir honum, og hefi jeg áður rökstutt þetta ítarlega.

Um hitt atriðið, að skipa seðlaútgáfunni endanlega, hefi jeg margtekið fram, að jeg væri á móti, því jeg tel heppilegra, að það sje gert þegar bankinn er orðinn eign landsins. En þrátt fyrir þennan agnúa, mun jeg greiða atkvæði með frv. til Nd., í þeirri von, að það verði lagfært þar, og ef svo heppilega tekst, að háttv. Nd. lagfæri frv. í þá átt, sem jeg óska, þá þykist jeg nú mega vera viss um, að það verði frv. ekki að falli hjer.