17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Magnús Kristjánsson:

Það er í raun og veru lítið, sem jeg þarf að svara háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). í fyrri ræðu hans komu ekki fram nein rökstudd mótmæli gegn brtt. okkar á þskj. 617. Hann ljet aðeins í ljós, að hún væri óþörf, af því, að eina skilyrðið til þess að ráða öllu um starfsemi Íslandsbanka væri að eignast meiri hluta hlutafjárins. Þetta getur verið rjett, að minsta kosti að nokkru leyti. en háttv. þm. er þá líklega nýlega kominn á þá skoðun, því þótt jeg hafi nú ekki nýlega lesið frv. hans og háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) þá minnir mig samt, að þar sje engin bending í þá átt. Þessi ástæða er því í mótsögn við það, sem háttv. þm. (Jak. M.) hefir áður sagt.

Annað atriði, sem þessi háttv. þm. (Jak. M.) færði fram gegn brtt., var það, að horfið hefði verið frá þeim upprunalega grundvelli. Það hefir ekki verið vikið frá þeim upprunalega grundvelli, en það er til lítils að viðhafa fögur orð um samningaviðleitni, ef alls ekkert má víkja frá þeim grundvelli, sem maður helst hefði kosið að fram næði að ganga.

Fleira var nú ekki í þessari fyrstu ræðu hans. en í annari ræðunni sagði hann, og bygði tillögur sínar á því, að Íslandsbanki hefði einkarjett til seðlaútgáfu í landinu. Þessu leyfi jeg mjer að mótmæla, því að það er sitt hvað að hafa einkarjett til seðlaútgáfu og að hafa rjett til að hindra, að aðrir gefi þá út. En þótt þessi skilningur háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) væri rjettur, sem nú ekki er, þá gagnar hann lítið málsstað hans. því að hitt er ómótmælanlegt, að hafi bankinn haft þennan rjett, þá hefir hann löngu fyrirgert honum. Og vildi háttv. þm. (Jak. M.) mótmæla þessu, þá mætti úr því skera með dómi, og mjer væri ekki mikið á móti skapi, þótt til þess kæmi, að málið yrði lagt undir úrskurð dómstólanna. Jeg er ekki í neinum vafa um það, hver afdrif málsins yrðu þá, en annars þarf ekki til þess að koma, þar sem þinginu er innan handar að gera bankanum það skiljanlegt, að hann er ekki einráður um sína starfsemi hjer á landi. Þá gat þm. (Jak. M.) þess, að ekki væri von, að stjórnarfrv. fengi góðan byr í peningamálanefndinni, þar sem hún hefði fengið þær upplýsingar, að bankinn gengi ekki að því. Þetta hygg jeg ekki vera rjett hjá háttv. þm. (Jak. M.), því alveg hið gagnstæða mun hafa átt sjer stað, að bankinn tjáði sig fúsan til að ganga að frv. Háttv. þm. (Jak. M.) virðist koma hjer fram sem málsvari eða málafærslumaður Íslandsbanka, og stingur það ekki alllítið í stúf við alt hans tal um verndun á rjettindum þessa lands.

Þá kem jeg að ræðu hæstv. fjrh. (M. G.). Jeg var mjög ánægður yfir því, að í upphafi ræðu sinnar talaði hann svo sem hann vildi reyna að koma á samkomulagi í deildinni og milli deildanna. Hann talaði um það, að þingmönnum bæri skylda til að sveigja til á sínum skoðunum, eins og þeim væri mögulegt, án þess að brjóta móti sannfæringu sinni. Um þetta er jeg honum alveg sammála og þótti vænlega horfa meðan hann ræddi málið á þessum grundvelli.

Hæstv. fjrh. (M. G.) gat þess, að litlar líkur væru um það, að samkomulag gæti náðst við Ed., nema ef vera skyldi um a- lið 1. brtt. við 2. gr. Það er þó eitt spor í rjetta átt. Aftur á móti taldi hann litlar líkur fyrir því, að b-liðurinn næði fram að ganga. Sá liður er nú heldur ekki neitt aðalatriði, og við flutningsmenn munum ekki leggja neitt kapp á hann, ef það væri líklegra til samkomulags að öðru leyti. En þegar kom að 2. brtt., þá fór í raun og veru að líta miður vel út um samkomulag, því hæstv. fjrh. (M. G.) gaf í skyn, að þýðingarlaust mundi vera að leita samkomulags um það atriði, þar sem Ed. mundi halda fast við, að ríkissjóður tæki 100% hlut í Íslandsbanka. Þetta kom mjer dálítið undarlega fyrir, því að með okkar brtt. er þetta alls ekki útilokað. Það hlýtur að vera hitt atriðið, sem deilt er um, að í okkar frv. á þskj. 520 er ætlast til þess, að ríkisstjórnin veiti bankanum þá hjálp, sem sagt er að hann þurfi, með því, annaðhvort að ganga í ábyrgð fyrir láni hans vegna eða þá að veita honum hæfilegt lán, ef það álitist heppilegra. Það er þetta ákvæði, sem virðist vera erfiðasti steinninn í götu fyrir samkomulagi. Þetta er aðalatriði málsins, því að ef við erum sammála um, að landið ætti að eiga hlutdeild í bankanum, en gætum ekki ráðist í það fyr en eftir óákveðinn tíma, þá hlýtur þeim, er mest bera hag bankans fyrir brjósti, að vera það áhugamál, að hitt fyrirkomulagið nái fram að ganga.

Við viljum veita bankanum stuðning og láta standa opið, að landið fái hlut í bankanum, eftir nákvæma rannsókn á öllum hag hans. Mjer er með öllu óskiljanlegt, hvernig hægt er að gera úr þessu ágreiningsefni milli deildanna.

Menn kynnu nú að segja, að Ed. mundi halda því fram, að með sínu frv. væri öllu náð. En þetta er ekki rjett, því að þar er ekki gert ráð fyrir þessari aðstoð, sem þarf að framkvæma svo fljótt sem unt er, ef hjálpin á að koma að gangi. Ef það er rjett, sem jeg fyrir mitt leyti efa og mótmæli, að háttv. Ed. reyndist svo óþjál, að hún vilji ekki aðhyllast okkar frv., þá væri ekkert óeðlilegt, að þessi háttv. deild hefði svo mikla metnaðartilfinningu, að hún ljeti ekki þannig setja sjer stólinn fyrir dyrnar, og ljeti sjer þá ekki mikið um finnast, þótt málið færi í sameinað þing. Þess vegna er það með öllu hættulaust, þótt okkar brtt. verði samþyktar.

Þá gat hæstv. fjrh. (M. G.) þess, að hann vildi gefa til kynna, að landið væri ekki til fyrir Landsbankann, heldur væri Landsbankinn til fyrir landið. Þetta skil jeg ekki, nema ef honum hefir fundist, að við flutningsmenn drægjum of mikið taum Landsbankans. En jeg held, að þessa gæti alls ekki í okkar frv. (Fjrh.: Þetta er útúrsnúningur!). Jeg hefi skrifað niður þessi ummæli; jeg hefi alls ekki reynt að snúa út úr þeim, en skal játa, að jeg skildi þau ekki.

Jeg skal taka það fram, að það er ekki ástæðulaust að athuga það, sem svo mjög er talað um nú, að landið eignist Íslandsbanka. Jeg álít það ekki neitt sjerlega æskilegt. Jeg hygg, að það, sem við eigum að vinna að, sje að þjóðbankinn eflist svo, að hann geti fullnægt þörfum þjóðarinnar. Að styðja að því, að landið eignist báða þessa banka, er sama og að stuðla að því, að hvorugur geti unnið til fullnustu það verk, sem þeir eiga að leysa af hendi. Það er gamalt máltæki — jeg veit ekki hvort jeg ætti að hafa það yfir, — sem segir, að ekki eigi að sletta því í tvær kollur, sem varla er nóg í eina.

En um hitt, hvað snertir hlutabankann með útlenda fjeð, þá er sjálfsagt að sýna honum svo lipurlega meðferð og svo mikla aðstoð, sem mögulegt er, án þess að ganga á rjett hins bankans, sem löggjafarvaldinu einkum ber að styðja.

Jeg tel æskilegt til frambúðar, að Landsbankinn verði studdur sem allra mest, og Íslandsbanki einnig svo, að hann geti int störf sín af hendi sem verslunarbanki. Þessu hvorutveggja held jeg, að megi koma í kring, ef till. okkar flm. verða samþyktar.

Þó ekki sje loku fyrir það skotið, að ríkið, eftir nákvæma rannsókn, leggi allmikið fje í Íslandsbanka sem hlutafje, þá má þó síst leiða af því, að þjóðbankinn fyrir þær sakir verði olnbogabarn þings og þjóðar. Mjer finst að ekki sje laust við, að á þeirri stefnu bóli dálítið hjer. En henni er jeg algerlega mótfallinn.

Jeg vænti þess, að hæstv. fjrh. (M. G.) vilji nú beita sínum áhrifum í þá átt, að samkomulag náist og þessar brtt. verði samþ. í þessari háttv. deild.

Í öðru lagi, að hann beiti áhrifum sínum til þess, að samkomulag náist milli deildanna. Og í þriðja lagi, ef það ekki fæst, þá, að samkomulag geti orðið um frv. og brtt. í sameinuðu þingi.

Og jeg er hræddur um það, að ef okkar brtt. verða nú feldar, þá sje mjög vafasamt, hvort við flm. getum fallist á frv.

Jeg hefi ekki ennþá fengið skýrt svar frá hæstv. fjrh. (M. G.) við þeirri fyrirspurn, hvort seðlaútgáfurjettur Íslandsbanka í frv. ætti að miðast við seðla í umferð 1. maí 1922, eða þá það, sem seðlaútgáfan kynni að komast hæst á árinu, eftir því, sem viðskiftaþörfin krefur. Jeg verð, að svo komnu máli, að leggja þann skilning í orð hæstv. fjrh. (M. G.), að þetta eigi aðeins við þá seðla, sem í umferð eru 1. maí 1922, og að það sje þar með ákveðið, að Íslandsbanki megi aldrei gefa út seðla umfram þá upphæð, sem í umferð verður 1. maí 1922.

Þetta er fyrir mjer talsvert mikið aðalatriði, og þætti mjer því gott að fá við því skýr og ákveðin svör.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en vil biðja háttv. þingdeildarmenn að athuga það, að hæstv. fjrh. (M. G.) lítur svo á, að líklegt sje, að hlutafjárkaup ríkisins verði ekki fyr afráðin, þó efri deildar frv. verði samþ. óbreytt. Jeg er honum þar sammála. Jeg býst við, að drátturinn á hlutafjárkaupunum verði að miklu leyti sá sami, hvort sem brtt. okkar flm. verða samþyktar eða ekki.

Munurinn, sem hjer er um að ræða og ágreiningur er um, er því sá, að eftir frv. Ed. er það lagt á vald stjórnarinnar, hvort hún skuli kaupa hluti í Íslandsbanka eða ekki. En eftir till. okkar flm. er svo ráð fyrir gert, að endanleg ákvörðun um þau kaup skuli heyra undir næsta þing. Og þykir mjer satt að segja kynlegt, ef þingið getur nú ekki tekið þann kostinn að geyma sjer ákvörðunarrjettinn um svona mikilsvert og þýðingarmikið atriði.

Jeg vona nú, að jeg þurfi ekki að taka hjer aftur til máls, því mjer sýnist, að þessi skoðanamunur ætti að geta jafnast án þess. Þætti mjer best á því fara, að deildin sýndi nú eindreginn vilja sinn í þessu máli og samþykti till. okkar með miklum meiri hluta. Þá treysti jeg því, að hv. Ed. felli ekki málið, og gæti þá ekki hlotist annað af en málið kæmi í sameinað þing.