17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Eiríkur Einarsson:

Jeg þarf ekki að láta hjer á mjer bæra um brtt. mínar, þar sem þær ekki koma til atkvæða nú.

En það, sem kom mjer til að standa hjer upp, voru ummæli háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), sem hann beindi sjerstaklega til mín.

Voru þau um það, hvernig jeg gæti rjettlætt það að bera fram 2. brtt., um að skipa nefnd til þess að athuga, hvernig eigi að styrkja Íslandsbanka. Jeg hlyti þá að vera á því að hjálpa bankanum. Þetta er alveg rjett, Jeg vil gjarna hjálpa bankanum, en ekki fyr en trygg rannsókn hefir farið fram á hag bankans, eins og jeg líka hefi áður tekið fram. Jeg lít svo á, að því ver sem hag Íslandsbanka er komið, því nauðsynlegri sje trygg rannsókn áður en ríkið leggur fje fram til hans. Vildi jeg ákveða, að þeirri rannsókn yrði lokið ekki seinna en fyrir næsta þing; henni má gjarnan vera fyr lokið.

Aðalatriðið er það, að bjarga landinu úr fjárvandræðunum, og mest um vert, að það takist. Hitt er ekki höfuðatriði, hvort kasta eigi fjenu í Íslandsbanka eða Landsbankann, bara að því fje sje vel varið til góðra þarfa í landinu og á öruggan hátt.

Og ef það verður ofan á að skipa nefnd milli þinga til að rannsaka fjármálin, þá finst mjer síður ástæða til að skipa málum Íslandsbanka til fullnustu nú. Rjettast að láta nefndina hafa öll fjármálin til athugunar, en vera ekki að skilja eitt undan. Vegna þeirra athugana, er háttv. þm. (Jak. M.) gerði við 1. brtt. mína á þskj. 628, að þar væri ekki fult samræmi, þá verð jeg að mótmæla því; ef brtt. er lesin með athygli, sjest, að hún getur vel staðist eins og hún er og að þar er ekkert ósamræmi. Ákvæðið samkvæmt brtt. yrði ekki skilið á annan veg en þann, að Íslandsbanki skyldi draga inn seðla, sem svaraði því, er Landsbankanum yrði veitt til viðbótar. Seðlaútgáfan í heild takmarkast af viðskiftaþörfinni, eins og síðari liður brtt. við 1. gr. segir.