19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Gunnar Sigurðsson:

Jeg skal vera stuttorður. Hæstv.fjrh. (M. G) var óvenjulega ákveðinn og harðorður í síðustu ræðu sinni. Það er sennilega af því, að flestir þeirra, sem hann átti orðastað við, eru dauðir, að hann hefir talið sjer óhætt að tala svona digurbarkalega. Jeg sný alls ekki aftur með það, að hjer á þinginu skiftast menn í tvo flokka, og er annar með Íslandsbanka, en hinn með Landsbankanum. Hitt sagði jeg aldrei, að jeg væri hvítur engill, sem væri mitt á milli flokka þessara. Mjer hefir fremur virst hæstv. stjórn vilja vera „hvítur engill“ á alveg sjerstakan hátt, nefnilega sem fullkominn skoðanaleysingi í máli þessu. Hún hefir altaf verið að leita hófanna um, hver stefnan yrði yfirsterkari, því víst vildi hún fylgja því, sem ofan á yrði, því hún er trygg og vinföst. Annars situr síst á fjármálaráðherra (M. G.) að láta sem hann þekki ekki þennan stefnumun, því að jeg veit ekki betur en að hann hafi sjálfur verið að brígsla þingmönnum um það, að þeir drægju taum Landsbankans. (Fjrh.: Alls ekki). Jú, það kom fram gagnvart 1. þm. Arn. (E. E.). (Fjrh.: Ósatt). Þetta er sannleikur, sem deildin getur vitnað. Jeg sný heldur ekki aftur með það, að það er alls ekki tryggilega gengið frá greininni um hlutakaupin. Þótt hæstirjettur tilnefni einn manninn til matsins, þá er alls ekki loku fyrir það skotið, að hlutdrægni geti komist að. Annars er hæstv. fjrh. (M. G.) farinn að feta í fótspor meistara síns, forsætisráðherra, og vanda um ræður manna hjer á þingi. En slíkt er ekki þeirra, heldur forseta, ef ástæða er til. En það er eins og sumir menn megi ekki heyra talað skýrt og skorinort hjer á þingi, heldur vilja þeir hafa eintóma skoðanaþoku og hugsanagraut. En jeg skal þó viðurkenna það, að margir eru verri með það en hæstv. fjrh. (M. G.). En að öðru leyti skal jeg láta hann vita það, að ef hann ætlar að fara að vanda um við mig, þá tek jeg það mjög óstint upp.