20.05.1921
Neðri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (2639)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg get tekið í sama streng og aðrir háttv. þdm., að mjer finst frv. hafa stórum spilst í háttv. Ed.

Þó mun jeg ekki verða á móti frv. í þeirri mynd, sem það er nú, því mjer skilst, að það megi samt að gagni verða og til tryggingar atvinnuvegi þessum, ef einkasöluheimildinni er beitt.

Þess vegna vil jeg skora mjög fastlega á stjórnina að leita álits útgerðarmanna, hvort þeir ekki vilji, að heimild þessi sje notuð, og þeir fúsir að styðja að því. Stjórnin þarf að fá sjer til aðstoðar 2 góða menn, sem vanir eru síldarsölu, og slíka menn geta aðeins útgerðarmenn lagt til.

Það hefir helst spilt fyrir síldarsölunni að útlendir kaupmenn hafa flutt út heila farma af hálfverkaðri síld, áður en landsmenn gátu selt sína. Þetta spilti fyrir okkar síld og sölu hennar og áliti á erlenda markaðinum.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, að lögin fyrirbygðu ekki, að útlendingar gætu selt sína síld, þá skilst mjer þó, að allir verði að lúta sömu skilyrðunum, og útlendingar geta síður fylt markaðinn með lítt hæfri vöru.